Stjórn Sögufélags Kópavogs f.v. Frímann Ingi Helgason, Gunnar Svavarsson, Þórður Guðmundsson, Ólína Sveinsdóttir og Arndís Björnsdóttir.
Héraðsskjalasöfn eiga mikið undir sögulegum áhuga íbúa á svæðinu sem þau starfa á og gagnkvæmur stuðningur sögufélags og héraðsskjalasafns á hverjum stað getur skilað miklum árangri við að efla þekkingu á heimahögum og mannlífi þar. Elsta héraðsskjalasafn landsins, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, á t.d. rætur að rekja til Sögufélags Skagfirðinga.
Sögufélag Kópavogs var stofnað fimmtudagskvöldið 17. nóvember sl. í safnaðarheimili Kársnessóknar, Borgum. Undirbúningsnefnd skipuð þeim Arndísi Björnsdóttur, Frímanni Inga Helgasyni, Gunnari Svavarssyni, Ólínu Sveinsdóttur og Þórði Guðmundssyni ásamt starfsmönnum Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs, þeim Hrafni Harðarsyni, Hrafni Sveinbjarnarsyni og Gunnari Marel Hinrikssyni skipulagði fundinn og samdi drög að lögum fyrir hið nýja félag.
Um 90 manns sóttu stofnfundinn og var gerður góður rómur að framtakinu.
Frímann Ingi hélt tölu fyrir hönd undirbúningshópsins og sagði frá aðdraganda þess að félagið var stofnað. Bæjarstjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir, flutti ávarp, færði félaginu veglega bókagjöf og árnaðaróskir. Þá voru lög félagsins borin undir atkvæði og samþykkt. Kosin var bráðabirgðastjórn fram að fyrsta aðalfundi og voru þau Arndís Björnsdóttir, Frímann Ingi Helgason, Gunnar Svavarsson, Ólína Sveinsdóttir og Þórður Guðmundsson úr undirbúningshópnum kosin einróma með lófataki. Magnús Óskarsson fyrrverandi yfirkennari við bændaskólann á Hvanneyri flutti erindi um upphaf þéttbýlismyndunar í Kópavogi sem hann varð vitni að þar sem hann ólst upp á Kópavogsbúinu á fyrri hluta 20. aldar. Sýndar voru gamlar myndir úr bænum. Einnig tók til máls Rannveig H. Ágeirsdóttir bæjarfulltrúi og óskaði hinu nýja félagi velfarnaðar. Ömmubakstur og sælgætisgerðin Freyja gáfu veitingar með kaffinu.
Fyrsti aðalfundur félagsins verður haldinn í febrúar og verður hann nánar auglýstur síðar. Þeir sem ganga í félagið fyrir annan aðalfund, þ.e. 2013, teljast stofnfélagar. Allir sem áhuga hafa á sögu hins unga bæjarfélags eru hvattir til að hafa samband við einhvern úr bráðabirgðastjórninni og ganga í félagið.