Miðvikudaginn 24. ágúst 2011 hélt Félag héraðsskjalavarða á Íslandi fræðslufund um skjalamál grunnskóla. Fundurinn var haldinn í Háskólafélagi Suðurlands á Selfossi í gegnum fjarfundabúnað og voru rúmlega 60 þátttakendur á fundinum í gegnum fjarfundabúnað. Þátttakendur voru skólastjórar, starfsmenn grunnskóla, sveitarfélaga, skjalastjórar, héraðsskjalaverðir og starfsmenn héraðsskjalasafnanna sem staddir voru á Akranesi, Borgarnesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Húsavík, Egilsstöðum, Höfn í Hornafirði og á Selfossi.
Hluti þátttakenda og fyrirlesara á fræðslufundi um skjalamál grunnskóla.
Það voru starfsmenn Borgarskjalasafns og menntasviðs Reykjavíkurborgar, þau Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður, Guðjón Indriðason deildarstjóri á Borgarskjalasafni og Eygló Traustadóttir skjalastjóri menntasviðs Reykjavíkurborgar, sem fluttu erindi en menntasvið Reykjavíkurborgar hefur í samvinnu við Borgarskjalasafn og grunnskóla í Reykjavík unnið að gerð skjalavistunaráætlunar, leiðbeininga um skjalavörslu og málalykla fyrir grunnskólana. Borgarskjalasafn og menntasvið hafa á árinu haldið nokkra fræðslufundi með skólastjórnendum í Reykjavík og heimsótt grunnskóla. Þetta er fyrsti fundurinn með skólastjórnendum, skjalavörðum og starfsmönnum annarra sveitarfélaga.
Þátttakendur í húsakynnum Háskólafélags Suðurlands.
Á fundinum var fjallað um: lög og reglugerðir er varða skjalahald grunnskóla og upplýsingarétt, skjalavistunaráætlun grunnskólanna í Reykjavík sem samþykkt var af borgarskjalaverði og forstöðumanni menntasviðs Reykjavíkur í mars s.l., leiðbeiningar um skjalavörslu og skráningarkerfi, frágang skjala og afhendingar til héraðsskjalasafna auk vinnuáætlunar og eftirfylgni.
Félag héraðsskjalavarða hefur frá upphafi staðið fyrir ýmiskonar fræðslustarfsemi fyrir félagsmenn sína og starfsmenn skjalasafnanna þar sem byggt er á jafningafræðslu og þannig reynt að styðja við lögbundna starfsemi héraðsskjalasafnanna auk þess að standa fyrir átaksverkefnum um söfnun á kvenfélaga og félaga kvenna auk sóknarnefnda.
Annar fræðslufundur um sama efni er fyrirhugaður í október og vonast er eftir því að flestir skólastjórnendur grunnskóla innan umdæma héraðsskjalasafnanna hafi þá setið þetta námskeið. Aðgangur að námskeiðinu var ókeypis.
Glærur frá fundinum verða settar á vefinn innan skamms. Þá geta þeir sem hafa spurningar sent tölvupóst á borgarskjalasafn@reykjavik.is eða á viðkomandi héraðsskjalasafn. Netföng skjalasafnanna er hægt að nálgast í flipanum til vinstri á heimasíðunni.
Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður, Guðjón Indriðason og Eygló Traustadóttir flytja erindi.