Hin árlega safnanótt á höfuðborgarsvæðinu verður haldin nú á föstudaginn og hefst dagskráin kl. 19:00 og lýkur á miðnætti.
Héraðsskjalasafn Kópavogs verður með opið hús að Hamraborg 1 og litla ljósmyndasýningu undir titlinum Íslendingurinn í Kópavogi. Íslendingurinn sem verður úti í horni hjá Héraðsskjalasafni Kópavogs verður (góðri venju samkvæmt á sýningum þess) strætóbílstjórinn sívinsæli.
Dagskrá safnanæturinnar í Kópavogi
Borgarskjalasafn Reykjavíkur verður með opið hús, dagskrá og sýningu í Grófarhúsinu að Tryggvagötu 15. Þar verður fjallað um félagsmiðstöðina Tónabæ í skjölum og tónum, lifandi bókasafn – þar sem einstaklingar eru lánaðir út eins og bækur til fróðleiks, sýndur verður listdans á vegum Listdansskóla Guðbjargar í Hafnarfirði, myndir frá héraðsskjalasöfnum landsins verða til sýnis og þjóðbúningakynning verður á vegum Heimilisiðnaðarfélagsins.
Sjá nánar um dagskrá Borgarskjalasafnsins
Þjóðskjalasafn Íslands verður með opið hús í lestrarsal sínum að Laugavegi 162 og dagskrá er á við þema næturinnar sem er Íslendingurinn. Þar verður ættfræðihorn, verðlaunagetraun er byggir á lestri á gamalli skrift, skjalagreining, fjallað verður um forvörslu skjala, fyrirlestrar um manntalsvef Þjóðskjalasafnsins, um mannkynbótastefnuna á Íslandi og stórubólu og flutt verður tónlist. Íslendingurinn sem verður í forgrunni hjá Þjóðskjalasafninu er sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, skjalavörðurinn Jón Sigurðsson sem á 200 ára afmæli 17. júní næstkomandi.
Heimasíða Þjóðskjalasafns Íslands