Kostnaður við gerð stafræns kerfis til söfnunar, varðveislu og aðgengis almennings að skjölum alríkisstjórnarinnar  í Bandaríkjunum hefur skv. frétt Washington Post 6. febrúar sl. blásið út og náð 1,4 milljörðum dollara og talið er að verkefnið geti farið 41% fram úr fjárhagsáætlun.

Ábyrgðareftirlit ríkisstjórnarinnar (Government Accountability Office) sem starfar á vegum Bandaríkjaþings við eftirlit og mat á áætlunum og gjörðum stjórnvalda hefur gagnrýnt Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna fyrir þetta.

Málið vekur „efasemdir um hvort alríkisstjórnin hafi skilvirka áætlun til að viðhalda og gera aðgengilegt  almenningi það geypilega magn rafrænna gagna“ sem mynduð hafa verið af stjórnvöldum skv. öldungadeildarþingmanninum Thomas R. Carper. Hann lýsti vonbrigðum yfir því að vandamál „sem hefðu blasað við um nokkurn tíma lægju óbætt hjá garði.“

Skýrsla Ábyrgðareftirlits Bandaríkjastjórnar um málið

Það er gömul saga og ný að ef menn hugsa ekki fyrir langtímavarðveislu um leið og þeir búa til skjöl eða gögn verður langtímavarðveisla að ill- eða óleysanlegu vandamáli.

Þegar erfitt og kostnaðarsamt var að mynda skjöl var farið varlega með verðmætt og gott efni, ritað var af vandvirkni og fjallað var um mikilsverð efni að mati þeirra er rituðu. Þau skjöl báru í sjálfum sér varanleika sem þekkist vart nú á tímum.

Með stafrænni tækni er auðvelt að mynda gögn hratt um hvað eina. Oft er það gert í skyndi og af hroðvirkni. Jafnframt er auðvelt að birta stafræn gögn opinberlega strax. Gríðarlegt magn myndast, gögnin hverfa í fjöldann og  bera í sér flýti og hverfulleika. Þetta skapar ný vandamál, einkum fyrir þá sem eiga að gæta að stöðugleika, öryggi og áreiðanleika gagnanna þannig að fært sé að halda þeim aðgengilegum til langframa. Spurningar vakna einnig um gildi varðveislunnar miðað við kostnaðinn.

Það kemur æ betur í ljós að nýting á stafrænu formi hefur verið meira af kappi en forsjá.

Hér á vefnum eru tenglar til heimasíðna er snúast um rafræn gögn og langtímavarðveislu þeirra: Stafræn gögn og vélvædd gagnavarsla.

Kostnaður við langtímavörslu stafrænna gagna fer úr böndunum