Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, Héraðsskjalasafn Ausfirðing og Héraðsskjalasafn Árnesinga sóttu eftir því að fjárlaganefnd Alþingis leggði fjármuni í nýtt atvinnuskapandi verkefni við skönnun og skráningu á ljósmyndum í vörslu safnanna. Á skjalasöfnunum var þegar fyrir þekking til að vinna verkefnið. Á fjárlögum voru settar 13,5 milljónir í verkefnið sem deilast jafnt á milli safnanna. Reiknað er með sex stöðugildum á söfnunum þremur á árinu vegna verkefnisins.
Starfsmenn héraðsskjalasafnanna á fundi í húsakynnum Héraðsskjalasafns Kópavogs eftir kynningu á hugbúnaði sem nota á við skráningu ljósmynda.
Undirbúningur vegna verkefnisins hefur staðið yfir frá því í nóvember. Að mörgu er að hyggja enda eru ríflega 400.000 ljósmyndir, ýmist á pappír, filmum af ýmsum stærðum, skyggnum, glerplötum og stafrænu formi á skjalasöfnunum. Menningarlegt gildi verkefnisins er ótvírætt. Ljósmyndir sem þegar liggja hjá héraðsskjalasöfnum, og einnig hjá einstaklingum, stofnunum og sveitarfélögum, hafa mikið menningar- og sögulegt gildi fyrir þjóðina og notkunarmöguleikarnir eru óendanlegir. Til að svo megi verða þarf samt að halda vel utan um það myndefni sem til er, safna því og skrá. Fjarlægðir milli staða á landbyggðinni valda því einnig að aðgengi almennings er ekki sem skyldi þar sem fyrir marga er langur vegur til næsta ljósmyndasafns og því afar mikilvægt að stuðla að því að hægt sé að miðla efninu með þeim hætti að það verði aðgengilegt hverjum og einum heima hjá sér. En áður en að því kemur þarf að vinna nauðsynlega forvinnu sem þessu verkefni er ætlað að skila.
Héraðsskjalaverðir, fv. Þorsteinn Tryggvi Másson Héraðsskjalasafni Árnesinga, Unnar Ingvarsson Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og Hrafnkell Lárusson Héraðsskjalasafni Austfirðinga undirrita samstarfssamning.
27. janúar undirrituðu héraðsskjalaverðir Skagfirðinga, Austfirðinga og Árnesinga samstarfssamning vegna verkefnisins en söfnin munu hafa víðtækt samráð um aðferðir við skönnun og skráningu, svo sem hægt er með það að markmiði að einfalda leitarbærni ljósmynda. Þá munu starfsmenn safnanna leitast við að afla sér sameiginlegrar þekkingar á uppbyggingu ljósmyndabanka og hafa starfsmenn safnanna með sér reglulega fundi til að samræma aðgerðir eftir því sem við verður komið. Starfsmenn mun einnig aðstoða við að þekkja myndefni hvort hjá öðru, sérstaklega þegar myndir eru teknar á svæði hins safnsins. Skjalasöfnin munu byggja upp myndabanka hvert á sínu svæði, en vísað verður á milli bankanna á heimasíðu skjalasafnanna. Jafnframt munu skjalasöfnin standa að sameiginlegri kynningu á verkefninu.
Framtíðarmarkmið verkefnisins er að gera þann menningararf sem liggur í ljósmyndum aðgengilegan á netinu. Þannig gætu íbúar þeirra landshluta sem söfnin þjóna, sem og aðrir áhugasamir, í framtíðinni nálgast efnið frá heimilum sínum eða vinnustöðum.
ÞTM