Þann 7. janúar sl. birti dómsmálaráðuneyti Bretlands fréttatilkynningu um þau áform að auka við gildissvið upplýsingalaga Breta (FOI eða Freedom of Information Act)  til að gefa almenningi kost á að fylgjast betur með stjórnvöldum og fleiri opinberum aðilum.

Breytingarnar munu auðvelda fólki að nota upplýsingalögin til að finna og nota upplýsingar um opinbera aðila og hvernig skattar þeirra eru nýttir. Upplýsingalögin munu einnig gilda um fleiri aðila, þar á meðal um fyrirtæki í opinberri eigu, hafnaryfirvöld, samtök sveitarfélaga o.s.frv.

Jafnframt verður meginþorri opinberra skjala sem varðveitt eru í Þjóðskjalasafni Bretlands og öðrum opinberum skjalasöfnum, aðgengilegur almenningi þegar þau eru 20 ára í stað 30 ára eins og nú er og sama á við um skjöl í ráðuneytum og hjá fleiri opinberum aðilum.

Dómsmálaráðherra Breta, McNally lávarður segði af því tilefni að „almenningur ætti rétt á stjórn sem væri opin og ábyrg fyrir gerðum sínum. Mér er ánægja að tilkynna um þessar ráðstafanir til að auka við gildissvið upplýsingalaganna, sem munu láta upp í hendurnar á fólki fleiri verkfæri til þess að komast að því hvort þúsundir breskra stofnana starfi í þágu almenning og skapi verðmæti sem svari fjárveitingum. En verkinu er ekki lokið með þessu  – við munum endurskoða upplýsingalögin í heild til að tryggja að áhrif þeirra verði sem árangursríkust.“ Hann sagði ennfremur að endurskoðun laganna væri hluti af loforðum ríkisstjórninnar um gagnsæi. Stefnt væri að því að bæta við þær upplýsingar sem almenningur hefði aðgang að og að ríkisstjórnin hefði þegar náð verulegum árangri við það.

Fréttatilkynninguna má nálgast hér í heild sinni.

Staða mála á Íslandi er gerólík þessu og gildandi upplýsingalög hérlendis virðast veita almenningi meira aðgengi. Þau er nú verið að endurskoða. Ein af meginbreytingunum á þeim frumvarpsdrögum sem Forsætisráðuneytið hefur kynnt frá gildandi lögum gæti takmarka aðgengi almennings frekar að skjölum opinberra aðila frá því sem nú er.

Samkvæmt drögum að frumvarpi til laga um Þjóðskjalasafn Íslands munu opinber skjalasöfn  að jafnaði taka ekki við pappírsskjölum fyrr en þau eru 30 ára gömul. Þær stofnanir sem hafa heimild til að varðveita skjöl sín á rafrænu formi eiga að afhenda þau á fimm ára fresti. Þjóðskjalasafn mun þó ekki veita aðgengi að rafrænu skjölunum heldur verða stofnanirnar að gera það í 20 ár. Áhrif þessara lagabreytinga, þ.e. á upplýsingalögum og lögum um Þjóðskjalasafn Íslands gætu því torveldað aðgengi almennings að skjalasöfnum opinbera aðila í stað þess að auðvelda það. Þetta er athyglisvert í ljósi breytinga á upplýsingalögum Breta og krafna um aukið gegnsæi í opinberri stjórnsýslu.

Þá fær Þjóðskjalasafn heimild til gjaldtöku vegna vörslu á pappírsskjölum sem ekki eru orðin 30 ára. Sú heimild mun vafalítið koma í veg fyrir að stofnanir afhendi Þjóðskjalasafni skjöl sín fyrr en eftir 30 ár. Héraðsskjalasöfnin hafa hingað til tekið við pappírsskjölum óháð því hvenær þau er mynduð og er það gert í góðri samvinnu við sveitarfélögin sem að þeim standa. Brýnt er að heildarendurskoðun á lögum um Þjóðskjalasafn Íslands styrki starfsemi héraðsskjalasafnanna enn frekar en gildandi lög kveða á um.

Breskum borgurum auðveldað að fylgjast með opinberum stofnunum