Gestir á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga hafa aldrei verið fleiri en árið 2010. Alls komu 1656 manns á safnið í leit að upplýsingum á árinu og eru þá ekki taldir með þeir sem unnu að fræðistörfum fyrir Byggðasögu Skagafjarðar á árinu. Athygli vekur hins vegar að karlar voru í miklum meirihluta gesta, en aðeins 223 konur lögðu leið sína á safnið á árinu.
Alls komu 1656 gestir á skjalasafnið, 223 gestir eða 13% eru konur, karlar eru 1433 eða 87% gesta.
Kvenhylli starfsfólks Héraðsskjalasafnsins er því greinilega í minna lagi. Hins vegar lítur dæmið öðruvísi út ef litið er til fyrirspurna sem safninu bárust með tölvupósti eða síma. Fyrirspurnirnar voru alls 437 og voru karlar 2/3 þeirra sem lögðu fram fyrirspurnir. Hluti af skýringunni virðist vera sú að skagfirskir karlar sjá enn í miklu mæli um mál sem snerta eignarhald s.s. landamerki jarða, lóðamörk og þess háttar, en konur huga fremur að málefnum fjölskyldunnar s.s. málefnum barna o.þ.h. Þessi staðreynd er á margan hátt merkileg og væri fróðlegt að vita hvort þetta sé einnig raunin á öðrum skjalasöfnum.
UI