Heimasíða Héraðsskjalasafnsins á Akureyri fór í loftið í febrúar á þessu ári og er óhætt að segja að henni hefur verið mjög vel tekið.
Lára Ágústa Ólafsdóttir skjalavörður við vinnu sína.
Það sem vekur kannski mesta athygli við þessa heimasíðu er það, að á henni má finna skrár yfir öll þau skjöl safnsins sem skráð hafa verið endanlegri skráningu og eru frágengin í geymslu.
Rætt hefur verið í mörg ár um það að gera skrár allra héraðsskjalasafnanna aðgengilegar á netinu og þá helst í einni samskrá en sá draumur hefur ekki enn orðið að veruleika. Með því að birta skrárnar á þennan hátt er stigið stórt skref í áttina að þessum draumi og vonandi sjá fleiri söfn sér fært að koma sínum skrám á framfæri á þennan eða einhvern annan hátt.
Safngestir hafa nú í auknum mæli verið búnir að skoða skrárnar áður en þeir koma á safnið og eru jafnvel með skjalanúmerin tiltæk, þannig að fljótlegt er að koma til móts við þeirra þarfir.
Skrárnar hafa þeir ýmist fundið með því að fara beint inn á www.herak.is eða hreinlega með því að „gúggla“ eitthvert efni, sem hefur leitt að viðkomandi skrá, án þess að hafa haft skjalasafn í huga þegar leitin hófst.
Þá er héraðsskjalasafnið komið með Facebook síðu og við hvetjum áhugasama að vingast við síðuna.
AS