Forstöðumenn 18 héraðsskjalasafna sendu erindi til fjárlaganefndar alþingis 12. október 2010. Innihald erindisins eru mótmæli þeirra við að í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi sé gert ráð fyrir því að framlag ríkisins til héraðsskjalasafna á árinu 2011 verði skorið niður um 50% frá sem það er á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir því að framlag ríkisins verði 7,4 milljónir í stað 14,7. Boðaður niðurskurður á ríkisframlaginu kemur sér illa fyrir héraðsskjalasöfnin og er ekki í neinu samræmi við þá almennu sparnaðarkröfu (um 5%) sem lögð er á Þjóðskjalasafn Íslands í fjárlagafrumvarpinu.
Það skýtur skökku við að skera niður ríkisframlag til héraðsskjalasafnanna á sama tíma og nýjar kröfur eru settar fram um skjalavörslu sveitarfélaga og stofnana þeirra sem hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir öll sveitarfélög í landinu, líka þau sem ekki standa að rekstri héraðsskjalasafns. Í erindinu er þess krafist að fjárlaganefnd endurskoði þann niðurskurð sem boðaður er í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi á ríkisframlaginu til héraðsskjalasafnanna.