Í tilefni af Alþjóðlega skjaladeginum 9. júní 2010 stóð Félag héraðsskjalavarða fyrir málþingi um skjalavörslu leik- og grunnskóla.
Málþingið var haldið á Selfossi í húsakynnum Háskólafélags Suðurlands. Í sparnaðarskyni var málþingið haldið í gegnum fjarfundarbúnað og sóttu 14 héraðsskjalaverðir þingið auk annarra starfsmanna héraðsskjalasafnanna.
Héraðsskjalaverðir frá söfnunum í Mosfellsbæ, Kópavogi Egilsstöðum, Reykjavík og Árnessýslu ásamt nokkrum starfsmönnum.
Miklar breytingar hafa orðið á skjalamyndun leik- og grunnskóla á síðustu árum og gerðar eru auknar kröfur um skjalavörslu í kjölfar nýrra laga og reglugerða. Einnig eru upplýsingar í vaxandi mæli á rafrænu formi án þess að langtímavarðveisla þeirra hafi verið tryggð. Í skólunum verður til mikið af upplýsingum sem hafa varanlegt gildi fyrir nemendur og brýnt að þær fari ekki forgörðum.
Héraðsskjalaverðir hafa unnið að undirbúningi verklagsreglna og viðmiða um skjalavörslu skólanna með það fyrir augum að auðvelda skólastjórum og kennurum að sinna skjalahaldi með sóma, án þess að íþyngja þeim með of flóknum og orðmörgum fyrirmælum.
Borgarskjalasafn er lengst komið í þessari vinnu og munu önnur héraðsskjalasöfn hafa gagn af því.
Á málþinginu voru haldnar framsögur um efnið og líflegar umræður sköpuðust. Gert er ráð fyrir að málþinginu verði fylgt eftir í haust með fræðslufundi með skólayfirvöldum sveitarfélaganna og mun sá fundur einnig fara fram um fjarfundarbúnað.
Félag héraðsskjalavarða var stofnað í mars á síðastliðnu ári með það fyrir augum að efla fræðslu og samstarf um skjalavörslu. Stjórn og félagsmenn halda reglulega símafundi og hafa beitt sér fyrir söfnun skjala kvenfélaga í samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands og skjala sóknarnefnda í samstarfi við biskup Íslands.