Átak um söfnun skjala sóknarnefnda hófst með blaðamannafundi Biskups Íslands og Félags héraðsskjalavarða á Dómkirkjuloftinu í byrjun febrúar á þessu ári. Í kjölfarið höfðu bæði Biskup og héraðsskjalaverðir samband við formenn sóknarnefnda þar sem þeir voru hvattir til að skila sóknarnefndaskjölum á næsta héraðsskjalasafn. Þá voru fyrrverandi sóknarnefndarmenn einnig hvattir til að afhenda skjöl sem þeir kynnu að hafa í sínum fórum.

Óhætt er að segja að verkefnið gangi vel. Fjöldi sóknarnefndarmanna hafa haft samband við héraðsskjalasöfnin og fengið ráðgjöf um skjalavörslu sóknarnefnda og um allt land eru sóknarnefndir að ganga frá skjalasöfnum sínum til afhendingar.

Þessar sóknarnefndir hafa afhent skjöl sína á héraðsskjalasöfnin í tengslum við átakið:

Sóknarnefnd Laugarnessóknar til Borgarskjalasafns Reykjavíkur.

Sóknarnefnd Kársnessóknar og sóknarnefnd Kópavogssóknar til Héraðsskjalasafns Kópavogs.

Sóknarnefnd Borgarnessóknar, Sóknarnefnd Kolbeinsstaðasóknar, Sóknarnefnd Stóru-Ássóknar og Sóknarnefnd Stafholtssóknar til Héraðsskjalasafns Borgarfjarðar.

Sóknarnefnd Þingeyrarsóknar til Héraðsskjalasafns Austur-Húnavatnssýslu.

Sóknarnefnd Glaumbæjarsóknar til Héraðsskjalasafns Skagfirðinga.

Sóknarnefnd Tjarnarsóknar til Héraðsskjalasafns Svarfdæla.

Sóknarnefnd Glæsibæjarsóknar til Héraðsskjalasafns Akureyrar.

Sóknarnefnd Hjaltastaðasóknar, Sóknarnefnd Hofssóknar í Vopnafirði og Sóknarnefnd Þingmúlasóknar til Héraðsskjalasafns Austfirðinga.

Sóknarnefnd Hjallasóknar, Sóknarnefnd Hrepphólakirkju, Sóknarnefnd Haukadalssóknar, Sóknarnefnd Miðdalskirkju, Sóknarnefnd Eyrarbakkasóknar, Sóknarnefnd Stokkseyrar og Sóknarnefnd Þorláks og Hjallasóknar til Héraðsskjalasafns Árnesinga.

Alls eru þetta 19 sóknarnefndir. Hér eru ótaldar eldri afhendingar sóknarnefnda til héraðsskjalasafna en á haustmánuðum er væntanleg útgefin yfirlitsskrá Félags héraðsskjalavarða yfir skjöl sóknarnefnda, lík þeirri yfirlitsskrá er kom út við lok fyrra átaks  félagsins um skjöl kvenfélaga. Sjá: Skýrslur Félags héraðsskjalavarða á Íslandi I. Skjalasöfn kvenfélaga og félaga kvenna í héraðsskjalasöfnum á Íslandi.MMIX.

ÞTM

Sóknarnefndarátaki miðar ágætlega