Kópavogsdagar eru haldnir árlega í tilefni af afmæli kaupstaðarréttinda Kópavogsbæjar er hann hlaut 11. maí 1955. Á Kópavogsdögum 2010 heldur Héraðsskjalasafn Kópavogs sýningu 10.-14. maí um kosningar í Kópavogi. Sýningin opnar mánudaginn 10. maí kl. 10 árdegis og lýkur síðdegis föstudaginn 14. maí kl. 16. Hún verður opin alla vikuna kl. 10 – 16. Aðgangur er endurgjaldslaus og öllum heimill.
Hörð átök einkenndu lengi stjórnmál í Kópavogi, svo mjög að um tíma var talað um Kópavog sem Litlu-Palestínu.
Kópavogshreppur var upphaflega stofnaður út úr Seltjarnarneshreppi fyrir tilstilli Framfarafélagsins Kópavogs en í 5. grein félagslaga þess segir: „Félagið lætur stjórnmál afskiptalaus, og er óheimilt að ræða þau á fundum félagsins.“ Í þessu er fólgin nokkur andúð á „stjórnmálum“ og orðið ber þarna merkingu sem e.t.v. er umhugsunarverð.
Framfarafélagið Kópavogur fékk hreinan meirihluta í hreppsnefndarkosningum í Seltjarnarneshreppi 1946 og leiddi það til skiptingar hreppsins í Kópavogshrepp og Seltjarnarneshrepp árið 1948.
Landsmálastjórnmálin rufu þá samstöðu er skapaðist um Framfarafélagið í upphafi í Kópavogi og settu stjórnmálaþróun í Kópavogi í áþekkan farveg og annarsstaðar á landinu. Alþýðuflokks- og Sjálfstæðisflokksmenn stóðu að framboði gegn Framfarafélaginu í Kópavogi árið 1948 við stofnun Kópavogshrepps – en félagið studdu þó ýmsir Sjálfstæðisflokksmenn áfram, Sjálfstæðisflokkurinn bauð sérstaklega fram í hreppsnefndarkosningunum 1950 og Framsóknarflokkurinn 1954. Þá buðu allir flokkar landsmálastjórnmála fram í Kópavogi nema Sósíalistaflokkurinn.
Það sem eftir stóð af Framfarafélaginu var Félag óháðra kjósenda, stuðningsmanna meirihluta fráfarandi hreppsnefndar. Andstæðingar Óháðra kjósenda uppnefndu þá kommúnista og reyndu með því, að hluta til í áróðursskyni, að fella bæjarstjórnmálin að landsmálastjórnmálunum. Óháðir kjósendur héldu hreinum meirihluta í Kópavogi frá kosningunum 1954 til ársins 1962. Óháðir kjósendur buðu fram til bæjarstjórnar Kópavogs allt til ársins 1970. Eftir ósigur þeirra í þeim kosningum kom fram Alþýðubandalagið í Kópavogi og var þá form landsmálastjórnmálanna orðið allsráðandi í Kópavogi.
Árið 1970 var haldið sameiginlegt prófkjör allra stjórnmálaflokka, aðferð sem má telja að nokkru í anda samstöðu hins gamla Framfarafélags og kynni að fela í sér hugmynd að nýsköpun stjórnmálastarfs á okkar tímum. Var reynslan af þessu góð og þetta endurtekið í Kópavogi nokkrum árum síðar.
Þjóðvarnarflokkur Íslands, sem stofnaður var árið 1953 og var einkum í landsmálastjórnmálum (nema í Reykjavík og á Akureyri), átti sterkar rætur í Kópavogi þótt ekki hafi orðið af því að hann byði fram til bæjarstjórnar þar. Margir stofnenda hans tóku virkan þátt í bæjarstjórnmálum Kópavogs í ýmsum flokkum.
Kvennastjórnmál urðu snemma mikilvæg í Kópavogi, Hulda Jakobsdóttir varð þar fyrst kvenna íslenskur bæjarstjóri árið 1957. Kosið var í Kópavogi um kvennaframboð (í Alþingiskosningum) og kvennalista í bæjarstjórnarkosningum.
Sérstaða stjórnmála í Kópavogi er nokkur og þau hafa haft nokkur áhrif á íslensk stjórnmál almennt.
Á sýningunni verður reynt að gefa yfirlit um kosningar og stjórnmál í Kópavogi með nokkru af því sem varðveitt er í Héraðsskjalasafni Kópavogs, en þar eru mikilvægar heimildir um stjórnmálasögu Kópavogs.
Bæði er búist við og vonast eftir að við þær heimildir bætist þar á næstunni. Er það komið undir þeim sem staðið hafa í stjórnmálastarfi og öðrum sem hafa komist yfir skjöl um það.
Öruggasta leiðin til þess að varðveita vitnisburð um stjórnmál liðinna tíma í sveitarfélögum er að koma skjölum um það í vörslu viðeigandi héraðsskjalasafns.