Héraðsskjalasafn Kópavogs var með opið hús á Safnanótt föstudaginn 12. febrúar síðastliðinn þar sem sýningin Pólitískir draumar og martraðir var opnuð. Þetta var í fyrsta sinn sem söfn utan Reykjavíkur tóku þátt í safnanótt, en auk safnanna í Kópavogi (Bókasafn Kópavogs, Náttúrufræðistofa Kópavogs, Gerðarsafn og Tónlistarsafn Íslands og Héraðsskjalasafnið) og í Reykjavík buðu söfn í Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ upp á dagskrá.

 

safnanott_logo

Á sýningu Héraðsskjalasafns Kópavogs var pólitík í forgrunni. Sýndir voru auglýsingapésar flokka sem boðið hafa fram í sveitarstjórnarkosningum í Kópavogshreppi og Kópavogskaupstað frá 1946 til 2002, prófkjörum 1970 og 1982 var gefinn sérstakur gaumur, en í þessi tvö skipti héldu öll framboð eitt sameiginlegt prófkjör, auk þess sem áróðursspjöld Wilhelms Ernst Beckmanns frá 4. áratug liðinnar aldar voru sýnd, auk annarra áróðursspjalda frá liðnum áratugum. Margt fleira var einnig á sýningunni sem of langt mál er að telja upp hér. Svarblöðum í Safnanæturleiknum gátu gestir skilað í ósvikinn kjörkassa og nýttu margir af yngri kynslóðinni sér þessa kosningaþjálfun.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Því miður var engin myndavél á safninu á Safnanótt en hér eru nokkrar myndir teknar af sýningunni mánudaginn 15. febrúar.

Gestir Héraðsskjalasafnsins á Safnanótt voru um 90 talsins og er það nokkuð góður árangur miðað við staðsetningu þess á þriðju hæð í skrifstofubyggingu í útjaðri safnasvæðisins í Kópavogi. Gerðu gestir góðan róm að sýningunni og voru áhugasamir um starfsemi safnsins, enda flestir að koma í fyrsta sinn. Allnokkrir bæjarfulltrúar bæði núverandi og fyrrverandi heimsóttu safnið og skemmtu sér við að rifja upp sögur úr bæjarpólitíkinni frá gamalli tíð og kynntu sér hvernig pólitíkin var áður en þeir komu til skjalanna.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Áhrifa sýningarinnar er strax farið að gæta því hið minnsta tvær skjalaafhendingar skila sér til safnsins beinlínis vegna Safnanætur.

GMH
Safnanótt á Héraðsskjalasafni Kópavogs