Héraðsskjalasafn Austfirðinga 40 ára
1976-2016

Héraðsskjalasafn Austfirðinga var stofnað 1976 samkvæmt lögum um héraðsskjalasöfn frá árinu 1947. Stofnendur þess og eigendur voru: Suður- Múlasýsla að 2/3 hlutum og Norður-Múlasýsla að 1/3. Þann 29. apríl 1992 breyttist eignaraðildin að safninu við það að stofnað var byggðasamlag um rekstur þess. Aðilar að byggðasamlaginu og núverandi eigendur eru öll sveitarfélög í Múlasýslum. Safnið starfar nú samkvæmt lögum um opinber skjalasöfn frá árinu 2014.

Hugmyndin um stofnun héraðsskjalasafns mun fyrst hafa komið fram á Fjórðungsþingi árið 1949 en ekki komst hreyfing á málið fyrr en um 1970 þegar endurvaktar voru hugmyndir um stofnun skjalasafns fyrir Austfirðinga. Árið 1971 sam- þykkti sýslunefnd Suður-Múlasýslu að minnast ellefu alda afmælis Íslandsbyggðar með stofnun héraðsskjalasafns og skyldi leitað samstarfs við sveitarfélög  í  Múlaþingi.  Árið  1972  gerðist Norður-Múlasýsla aðili að væntanlegu safni, en kaupstaðirnir Neskaupstaður og Seyðisfjörður afþökkuðu þátttöku, en komu seinna til samstarfs. Næstu tvö árin gerðist fátt annað en að sýslurnar festu kaup á húsi fyrir safnið. Var það gamla Póst- og símstöðvarhúsið við Kaupvang á Egilsstöðum. Snemma árs 1974 gerðist það svo að væntanlegt safn fékk að gjöf bókasafn Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur  og  Halldórs  Ásgrímssonar. Halldór var þá látinn en þau hjón höfðu áður ákveðið að gefa bókasafnið til Austurlands. Völdu Anna Guðný og synir hennar að það skyldi fara til héraðsskjalasafnsins. Var bókagjöfin um 5000 bindi að umfangi ásamt miklu safni tímarita. Hefur bókasafnið m.a. að geyma mikinn fróðleik um ættfræði, þjóðfræði og sögu Austurlands sem hefur í gegnum árin auðveldað starfsfólki og safngestum vinnu við heimildaleit og skráningu.

Bókagjöfin kom skriði á framkvæmdir og var Héraðsskjalasafn Austfirðinga stofnað á áttræðis afmæli Halldórs Ásgrímssonar þann 17. apríl 1976. Var formaður fyrstu stjórnar kjörinn Jón Kristjánsson. Skjalavörður var ráðinn Ármann Halldórsson. Hans beið það mikla verkefni að koma fyrir bókum og skjölum, innrétta lestrarsal og síðast en ekki síst að hefja skráningu bóka og skjala. Var safnið formlega opnað haustið 1977 og var til að byrja með opið tvisvar í viku, 4 tíma hvorn dag.

Meginhlutverk Héraðsskjalasafnsins er að taka við skjölum skilaskyldra aðila, sveitarfélaga og stofnana þeirra, skrá þau og varðveita. Einnig er tekið við einkaskjölum t.d. bréfasöfnum, ljósmyndum og dagbókum einstaklinga og skjölum félaga og fyrirtækja. Að slíku efni er jafnan mikill fengur enda oft að finna í því upplýsingar um samfélög liðins tíma sem ekki eru í opinberum skjölum.

Fyrstu árin virðist hafa gætt tregðu hjá sveitarfélögum við afhendingu skjala og voru þeir Helgi Gíslason á Helgafelli og Eiríkur Eiríksson frá Dagverðagerði sendir út af örkinni, báðir reyndir smalar á fornan fróðleik og varð vel til fanga. Einnig bárust hreppsskjöl af Austurlandi sem komin voru á Þjóðskjalasafnið.

Sigurður Óskar Pálsson og Ármann Halldórsson

Sigurður Óskar Pálsson tók við af Ármanni sem forstöðumaður árið 1984. Sem fyrr var unnið ötullega að því að flokka og skrá skjöl. Jafnframt önnuðust forstöðumenn bókakaup og lögðu sig fram um að leita uppi eintök sem vantaði í blaða- og tímaritasafn. Ennfremur sinntu þeir af ljúfmennsku beiðnum safngesta sem oftar en ekki snéru að tímafrekum rannsóknum eins og aðstoð við ættfræðigrúsk. Tölvuskráning hófst í tíð Sigurðar Óskars og vann Guðgeir Ingvarsson að henni.

Þann 17. apríl árið 1996 flutti Héraðsskjalasafnið í Safnahúsið, nýtt húsnæði að Laufskógum 1 á Egilsstöðum. Sama ár tók Hrafnkell A. Jónsson við starfi héraðsskjalavarðar. Hófst nú nýr kafli í starfi safnsins. Bókasafnið var skráð í landskerfi bókasafna og áfram var unnið við skráningu skjala- safns. Tölvuskráning Ljósmyndasafns Austurlands hófst um svipað leyti en safnið, sem er í eigu Héraðsskjalasafns, Minjasafns Austurlands og SSA, er hýst í Héraðsskjalasafninu og rekið undir hatti þess. Hafa öll söfnin vaxið mikið að umfangi í áranna rás.

Í Héraðsskjalasafninu er ágæt aðstaða fyrir fræðiiðkanir og söfnin luma á margvíslegu efni sem nýst getur við fjölbreyttar rannsóknir, hvort heldur sem þær eru unnar af fræðimönnum, nemum eða öðrum sem kjósa að nýta sér safnkostinn. Margs konar gögn eru í skjalasafninu, þar má t.d. leita upplýsinga um örnefni, landamerki eða um starfsemi félaga sem afhent hafa safninu skjöl sín. Þá er þar að finna ýmsar fágætar bækur og gott tímaritasafn. Því verður ekki neitað að tölvuvæðingin hefur haft sín áhrif á aðsókn og eðli fyrirspurna. Vilji menn vita eitthvað um ættir sínar, nú til dags, nota þeir tölvuna og fara inn á Íslendingabók og flest eldri tímarit er hægt að kynna sér á vefnum Tímarit.is. Engu að síður á safnið enn sína fastagesti og velunnara og margir líta inn sem hér eru á ferðalagi.

Hrafnkell A. Jónsson lést langt fyrir aldur fram í maí 2007 og tók Hrafnkell Lárusson við starfi hans í janúar 2008. Núverandi forstöðumaður er Bára Stefánsdóttir sem hóf störf í maí 2013. Í Héraðsskjalasafninu starfa þrír fastir starfsmenn í samtals tveimur stöðugildum. Auk þeirra hafa undanfarin ár verið við safnið starfsmenn sem sinnt hafa tímabundnum verkefnum. Má þar nefna innslátt sóknarmannatala og skönnun ljósmynda en afraksturinn af þeirri vinnu má sjá á ljósmyndavef safnsins myndir.heraust.is. Þá hefur safnið heimasíðuna heraust.is sem hefur verið uppfærð í tilefni af afmælisárinu.

Héraðsskjalasafn Austfirðinga 40 ára