Héraðsskjalasöfnin halda öll aðfangabækur en í þær eru skráðar allar afhendingar til safnanna, hvort heldur þær eru frá skilaskyldum aðilum, t.d. sveitarfélögunum og stofnunum þeirra, ýmsum félögum s.s. íþrótta- og kvenfélögum auk afhendinga frá fyrirtækjum og einstaklingum.

Árið 2011 bárust héraðsskjalasöfnunum hvorki meira né minna en 877 afhendingar. 236 afhendingar voru frá skilaskyldum aðilum en 641 afhending frá einstaklingum, félögum og fyrirtækjum. Enn er verið að skrá og ganga frá hluta þessara afhendinga en ætla má að þetta séu um 500 hillumetrar. Afhendingar sveitarfélaganna eru stærstar.

her_arn_afhending

Hluti af einskaskjalasafni sem afhent var á Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Ljóst er að héraðsskjalasöfnin hafa veigamiklu hlutverki að gegna þegar horft er til stjórnsýslu þeirra sveitarfélaga sem eiga söfnin. Skjöl sem snerta réttindi og skyldur íbúa og sveitarfélaganna sjálfra eru varðveitt í héraði og því aðgengileg íbúum án mikillar fyrirhafnar. Í menningarlegu tilliti er hlutverk héraðsskjalasafnanna ekki síður mikilvægt. Heimildir sem eru grundvöllur að héraðs- og byggðasögurannsóknum er varðveittar á skjalasöfnunum og eins og tölurnar hér að framan visa til, þá bætist stöðugt við.

Tæplega 900 afhendingar árið 2011