Borgarskjalavörður og héraðsskjalavörður Kópavogs hafa hvor um sig ritað umsagnir um frumvarp til upplýsingalaga.
Frumvarpið hefur verið lagt fram áður og var breytt eftir fyrra umsagnarferli, en héraðsskjalaverðir rituðu áður umsagnir um fyrri gerð þess og drög að henni.

Umsögn Borgarskjalavarðar Reykjavíkur um frumvarp til upplýsingalaga þskj. 442 – 366. mál, 16. mars 2012.

Umsögn Borgarskjalavarðar er 15 blaðsíður og fjallar um ýmsa þætti sem betur mættu fara í frumvarpinu. Gildissviðið sé ekki nægilega skýrt og sérstaklega er gagnrýndur undanþágumöguleiki frá ákvæði um að fyrirtæki í meira en 51% opinberri eigu falli undir almennan upplýsingarétt. Einnig er gagnrýnd aðgreining á upplýsingarétti eftir aldri skjala.

Skilgreiningu á því hvað er „mál“ vantar í lögin og ýmislegt kann að lenda utangarðs sem ekki getur beinlínis talist mál t.d. bekkjarkladdar, fundargerðir og bókhaldsskjöl. Leynd á vinnugögnum er gagnrýnd.

Bent er á að þörf sé í vissum tilfellum á auknum aðgangi fyrr en kveðið er á um í frumvarpinu t.d. þegar afkomendur hlutaðeigandi eru annars vegar. Bent er á að orðalagið „tiltekið mál“ sé vafasamt því oft eigi fólk erfitt með að tiltaka mál þótt um sé að ræða gögn sem það varðar sjálft. Hvatt er til að kveðið verði á um rétt fyrirspyrjanda til þess að þurfa ekki að gefa upp nafn sitt að sænskri fyrirmynd.

Umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs um frumvarp til upplýsingalaga þskj. 442 – 366. mál, 1. mars 2012.

Umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs er 20 blaðsíður. Bent er á alvarlega rangfærslu um sænskan upplýsingarétt í greinargerð með frumvarpinu, en rétt sé að leita fyrirmyndar í hinum þróuðu og þrautreyndu sænsku upplýsingalögum fremur en norskum og dönskum þar sem þau síðarnefndu séu frumstæð og vanþróuð. Harkalega er brugðist við ósanngjarnri gagnrýni á sveitarfélög af hálfu forsætisráðuneytis í greinargerð með frumvarpinu.

Bent er á að frumvarpið þjóni stjórnsýslunni, því næst bröskurum og síðast komi hinn almenni borgari, þetta eigi að vera öfugt. Birtingu upplýsinga og aðgengi að skjölum sé blandað saman og bent á að aðgengi að opinberum skjölum sé tryggt með rekstri Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna. Á meðan þessar stofnanir hafa mátt búa við skerðingu í opinberum fjárframlögum sé fé ausið í sýndarmennsku á internetinu. Bent er á að með þessari stefnu endi þetta líkt og í riti George Orwells 1984 þar sem Ráðuneyti sannleikans skammtaði upplýsingar og hagræddi sannleikanum.

Bent er á að ofuráhersla Þjóðskjalasafns Íslands á rafrænar vörsluaðferðir, sem enn eru aðeins vonarpeningur hafi dregið úr öðru starfi þeirrar stofnunar sem annars hefði átt að stuðla að því að tryggja framgang upplýsingalaga. Hugmyndir um stór miðlæg samræmd skjalavörslukerfi eru gagnrýndar harkalega og minnt á ákveðin grundvallaratriði í faglegri skjalavörslu sem fara gegn slíku, auk þess sem minnt er á notkun slíkrar miðlægni í alræðisríkjum.

Minnt er á vanrækslu lögbundins eftirlitshlutverks Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna og bent á að það sé þáttur í því að ekki hefur tekist sem skyldi að gera upp við efnahagshrunið.

Átalið er að ætlunin sé að gera skilaskyldu til skjalavörslustofnana og varðveislu skjala háða upplýsingarétti almennings. Þetta sé bagalegt og sérstaklega þar sem takmarka eigi upplýsingarétt almennings við fyrirtæki og rekstur í eigu hins opinbera sem séu í 51% opinberri eigu eða meira. Jafnvel er takmörkunin gagnvart hærra eignarhlutfalli ef ráðherrum, sveitarstjórnum og samkeppniseftirliti þóknast að tryggja leynd upplýsinga á forsendum samkeppnishagsmuna sem hvort eð er eru verndaðir skv. frumvarpinu. Þetta er aðeins til þess fallið að þóknast geðþótta manna sem ætla að gera eitthvað sem þolir ekki dagsljósið og nota til þess opinbert fé.

Leynd á ríkisráðsfundargerðum til margra ára þykir minna á stjórnarhætti í Sovétríkjunum. Leynd og undanskot vinnugagna  skv. frumvarpinu býður upp á allskonar túlkun og misferli og getur réttlætt eyðingu þýðingarmikilla gagna og stuðlað að glötun þeirra. Talið er óeðlilegt  að öðruvísi eigi að fara með aðgengi að skjölum þegar þau fara í vörslu opinberra skjalavörslustofnana en það er í meðförum þeirra stjórnvalda sem þau mynda. Öll ákvæði um aðgengi að skjölum eigi að vera í upplýsingalögum.

Loks er bent á að miðað við gildandi lög um Þjóðskjalasafn Íslands þar sem stjórnarnefnd Þjóðskjalasafnsins fer með ákvörðunarvald um eyðingu skjala og að gildandi upplýsingalög og hið nýja frumvarp fjalli um aðgengi að „fyrirliggjandi gögnum“ sé ljóst að stjórnarnefndin getur með ákvörðunum sínum skert upplýsingarétt almennings. Þetta nái ekki nokkurri átt. Auk þess sé fyrirhuguð breyting í drögum að lagafrumvarpi um Þjóðskjalalasafn að fela þjóðskjalaverði einum þetta vald.

Viðhorf allra umsagnaraðila eru mjög upplýsandi um þjóðfélagsástand og viðhorf um upplýsingamál almennt og því þykir vert að vísa hér til allra umsagna um frumvarp til upplýsingalaga

Allar umsagnir um frumvarp til upplýsingalaga í fyrri umferð 2011

Allar umsagnir um frumvarp til upplýsingalaga í seinni umferð 2012

Umsögn borgarskjalavarðar Reykjavíkur um frumvarp til upplýsingalaga í fyrri umferð þskj. 502 – 381. mál á 139. löggjafarþingi, 16. mars 2011.

Umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs um frumvarp til upplýsingalaga í fyrri umferð þskj. 502 – 381. mál á 139. löggjafarþingi, 15. mars 2011.

Frumvarp til upplýsingalaga