Merkið sem undirbúningsnefnd Árnasafnsbyggingar á Íslandi seldi til fjáröflunar 1. desember 1952. „Merkið er fölgulur flötur, tákn skinnhandrits á brúnum grunni, en styrk hönd með fjaðrapenna hefir nýlokið við að rita orðin: „Handritin heim“.“ Börnin sem seldu merkið á fullveldishátíðarhöldunum fengu að fara á þrjúbíó í Nýja-bíó, Gamla-bíó, Austurbæjarbíó og Tjarnarbíó 13. desember 1952. Mynd úr Morgunblaðinu 30. nóvember 1952.

Borgarskjalavörður og héraðsskjalavörður Kópavogs hafa hvor um sig ritað umsagnir um frumvarp til laga um menningarminjar

Umsögn Borgarskjalavarðar Reykjavíkur um frumvarp til laga um menningarminjar þskj. 370 – 316. mál

Umsögn héraðsskjalavarðar Kópavogs um frumvarp til laga um menningarminjar þskj. 370 – 316. mál

Borgarskjalavörður gerði m.a. alvarlegar athugasemdir við að í frumvarpinu væri ekkert fjallað um hvaða atriði þurfi að hafa í huga varðandi varðveislu skjalasafna eða stakra skjala sem eru þjóðargersemar. Ekki væri kveðið á um skrá yfir mikilvæg skjalasöfn í einkaeigu. Einnig vantaði að kveðið væri á um að leitað væri til sérfræðinga á sviði skjalavörslu varðandi beiðnir um útflutning skjalasafna.

Héraðsskjalavörður Kópavogs ítrekaði fyrri umsögn sína sem var sameiginleg með héraðsskjalaverði Árnesinga og gerði almennar athugasemdir við aðferðir við umsagnarferli.
Héraðsskjalaverðir Kópavogs og Árnesinga sendu áður menntamálanefnd Alþingis sameiginlegar umsagnir um tvö lagafrumvörp er snúast um flutning menningarverðmæta á milli landa, með skjöl og skjalavörslu í huga. Var í þeim velt upp ýmsum siðferðislegum vandkvæðum og átalið hversu brotakennt yfirlit yfir stöðu mála er í greinargerð, réttarsögulega og þjóðréttarlega og að yfirlit yfir alþjóðasamninga á þessu sviði sé ófullkomið auk þess sem gagnrýnd var hugtakanotkun og þýðingar úr Evrópurétti. Skjalavarsla sé auk þess gerð hornreka fyrir varðveislu listgripa, fornminja og minjastaða.

Umsögn héraðsskjalavarða Kópavogs og Árnesinga frá 12. maí 2011 um fyrri gerð þessa lagafrumvarps, þ.e. um frumvarp til laga um menningarminjar þskj. 1153 – 651. mál á 139. löggjafarþingi.

Umsögn héraðsskjalavarðanna um þetta frumvarp var sett fram samhliða athugasemdum við frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa m.a. í ljósi þess að menntamálaráðherra mælti fyrir báðum frumvörpunum í einu.

Umsögnin hefst á þeirri gagnrýni að ekki komi nægilega skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu að grundvöllur laganna er 36. grein Rómarsáttmálans.
Hugtakanotkun, þýðing á hugtökum og skilgreiningar hugtaka er harðlega gagnrýnd m.a. hugtakið menningarminjar, skjöl geta tæpast talist minjar nema í fornleifafræðilegum skilningi. Einnig er gagnrýnt að ekki skuli gerð faglega grein fyrir réttarsögulegri og þjóðréttarlegri þróun þessara mála gagnvart Íslandi og Íslendingum í greinargerð er fylgir frumvarpinu.

Bent er á að upptalning á alþjóðlegum sáttmálum um vernd menningarverðmæta sé ábótavant í greinargerðinni. Þar vantar t.d. UNIDROIT sáttmála um stolna eða ólöglega útflutta menningargripi. 24. júní 1995 er tók gildi 1. júlí 1998. (UNIDROIT Convention on Stolen or Illegally Exported Cultural Objects) og Sáttmála um vernd menningararfs neðansjávar 2. nóvember 2001 er tók gildi 2. janúar 2009. (Convention on the Protection of the Underwater Cultural Heritage), en mestu muni um að ekki er nefnt að Ísland er eitt þriggja Evrópuríkja sem ekki á aðild að Haag sáttmálanum um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum frá 1954 en hann er kjölfestan í verndun menningarverðmæta ýmissa þjóða innan sem utan Evrópu.

Gert er að umtalsefni að skjöl og skjalasöfn eru nefnd eins og í framhjáhlaupi í frumvarpinu og þeim ekki gerð viðhlítandi skil líkt og fornminjum. M.a. er nefnt að full þörf sé á Skjalavörslusjóði, ekki síður en Fornminjasjóði og Húsafriðunarsjóði.

Bent er á þýðingarvillu í texta laga nr. 123/2008 sem varað var við á sínum tíma en hlaut þrátt fyrir það samþykki Alþingis fyrir orð ráðuneytisins. Skilgreiningin á skjali í þeim lögum er því ekki nothæf í þessu lagafrumvarpi og þýðingarvilla er í frumvarpinu hvað hana varðar miðað við enskan texta 11. töluliðar tilskipunar Evrópusambandsins nr. 93/7/EBE.
Vitnað er í athugasemdir héraðsskjalavarðanna við drög að lögum um Þjóðskjalasafn Íslands 7. janúar 2011 og fjallað um viðbrögð ráðuneytisins við þeim og þau átalin. Einnig er skilningsleysi og viðbrögð Þjóðskjalasafns Íslands við réttmætum gagnrýnisröddum héraðsskjalavarða átalið.

Umsögn héraðsskjalavarða Kópavogs og Árnesinga um  frumvarp til laga um skil menningarverðmæta til annarra landa þskj. 1151 – 649. mál á 139. löggjafarþingi.

Megininntak umsagnarinnar er að menningarverðmætum annarra þjóða ætti að skila til síns heima, það sé nátengt því að Íslendingar geti gert slíkar kröfur um endurheimt sinna eigin menningarverðmæta.

Gagnrýnt er að verðmat á menningargripum ráði miklu um löggjöfina og bent á að á slíkri markaðsvæðingu séu siðferðislegir annmarkar. Einnig er mismunun á skilum menningarverðmæta eftir þjóðerni þ.e. eftir því hvort það er innan eða utan Evrópusambandsins bæði óþarft og óviðeigandi. Virðing fyrir menningarverðmætum annarra þjóða á ekki að vera mismunandi eftir þjóðerni.

Bent er á að grunnur laganna, sem er tilskipun Evrópusambandsins gangi e.t.v. ekki nógu langt og nefnt til skýringar að innan sambandsins sé Stóra-Bretland og Grikkland sem deili um forna gripi frá Grikklandi. Hagsmunir Íslendinga af því að takmarka við tíma endurheimt menningarverðmæta sem hafa verið fluttir ólöglega á milli landa eru engir.
Heildaryfirlitsskýrslu um íslenskan menningararf á Íslandi og erlendan menningararf á Íslandi skortir og þar með grundvöll löggjafar og stefnu í þessum efnum. Hugtakanotkun er ósamræmd og gölluð í frumvarpinu (vísað er til umsagnar um frv. til laga um menningarminja um það og fleira). Lögð er til aðild að UNIDROIT sáttmálanum um stolna eða ólöglega útflutta menningargripi og að löggjöfin miðist við hann. Þjóðminjavarsla er sett í öndvegi í frumvarpinu og ekki gætt jafnræðis við skjalavörslu. Því er lagt til að þeir þættir er snúa að skjalavörslu verði fremur felldir undir lög um opinbera skjalavörslu.

Frumvarp þetta varð að lögum sem taka gildi 1. janúar 2013.

Héraðsskjalavörður Kópavogs kom fyrir menntamálanefnd Alþingis í ágúst 2011 vegna umsagnarinnar og vakti m.a. athygli á að sérfræðiálit Menningar- og menntamálaráðuneytisins sem Stjórnlagaráð óskaði eftir um stjórnarskrárákvæði um vernd menningarverðmæta í eigu þjóðarinnar  bæri í sér rangfærslu um afhendingu hluta handrita Árnasafns til Íslands þar sem sá gjörningur var í sérfræðiálitinu kallað „handritagjöf Dana“. Lagði héraðsskjalavörðurinn áherslu á að raunveruleg sérfræðiþekking búi að baki lagasetningu um vörslu skjala og annarra menningarverðmæta og taldi slíkri sérfræðiþekkingu um skjalavörslu ábótavant í ráðuneytinu. Taldi hann þá hugmynd Stjórnlagaráðs mikilvæga að ekki megi veðsetja menningarverðmæti þjóðarinnar ekki síst í ljósi veðsetningar á réttindum til nýtingar á fiskistofnum íslensku þjóðarinnar. Þetta væri enn brýnna þegar litið væri til þeirrar áherslu á peningaverðmat á ómetanlegum verðmætum sem sjá má í frumvörpunum.

HS

Lagafrumvörð um inn- og útflutning menningarverðmæta