Leyndarhyggja og óskýrleiki í stjórnsýslu við gerð, vörslu og aðgengi skjala gerir almenningi sem að réttu lagi ættu að vera frjálsir borgarar að þegnum stjórnsýslunnar, ekki ósvipað húsdýri á bási gagnvart bónda. Þessi heiðurskýr er með kennitölur í eyrunum.

Hér má sjá bréfið Stjórn Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sendi innanríkisráðherra bréf 29. nóvember 2011 vegna þess að felld hafa verið úr lögum um sveitarstjórn mikilvæg ákvæði um færslu fundargerða.

Enn er beðið viðbragða ráðherra við því.

Mikilsvert er að fundargerðir séu rétt færðar og hafi fullt gildi, enda felast að jafnaði í þeim mikilvægustu ákvarðanir stjórnvalda hvort heldur hjá ríki eða sveitarfélögum. Héraðsskjalasöfnin eiga að sjá um aðgengi að þessum fundargerðum þegar þær hafa verið afhentar til vörslu þar, einnig ber þeim að hafa eftirlit með daglegri skjalavörslu sveitarfélaga sem að þeim standa. Sé gripið í tómt eða fundargerðirnar ekki fullnægjandi liggja héraðsskjalasöfnin undir þungu ámæli notenda sinna.

Héraðsskjalaverðir gerðu athugasemdir við þessar breytingar á sveitarstjórnarlögum þegar þau voru til umfjöllunar fyrir Alþingi en án þess að tillit væri tekið til þeirra. Sjá þær athugasemdir.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út ágætan fræðslubækling um fundarhöld og færslu fundargerða

Í fundarsköpum einstakra sveitarfélaga eru leiðbeiningar um færslu fundargerða, sjá t.d. hjá Akureyrarbæ (31. grein).

Þessar leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fundarsköp Akureyrarbæjar byggjast  á þeim sveitarstjórnarlögum sem nú eru fallin úr gildi.

Nú mun skv. fréttum komið í ljós að vantað hefur upp á færslu fundargerða lána- og fjárfestinganefnda hjá lífeyrissjóðum en úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða mun hafa kallað eftir þeim.

Bætist þetta við gagnrýni sem birtist í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu þar sem áberandi virðist hafa verið víða að fundargerðir hafi ekki verið færðar, ekki færðar rétt eða kláraðar.

Menn virðast hafa staðið uppi með skjöl í formi draga og minnispunkta með óskýrt gildi og þýðingu, og óljóst hver ber ábyrgð á þeim ákvörðunum sem voru teknar, enda óljóst hvort þær voru teknar löglega þótt þeim hafi verið framfylgt þar sem menn töldu að þær hefðu verið teknar. Hver ber ábyrgðina þegar slíkt hefur hent? Voru þeir sem framfylgdu óljósum ákvörðunum að taka ákvarðanirnar sjálfir? Verða þeir dregnir til ábyrgðar?

Það gefur auga leið að eðlileg stjórnsýsla verður ekki rekin misferlis- og stóráfallalaust án þess að þetta sé í lagi. Að mikilvægustu ákvarðanir stjórnvalda geti orðið leynilegar eða óskýrar með þessum hætti býður heim ýmsum hættum m.a. að mönnum gefst tækifæri til þess að hlaupast undan ábyrgð þegar í óefni er komið.

Fundargerðir ríkisráðs eru leynilegar að lögum í ákveðinn tíma. Það er fordæmi sem hefur skaðleg áhrif á alla stjórnsýsluna í átt til leyndar. Að æðstu stjórnvöld geti þannig staðið skýringa- og ábyrgðarlaus á gjörningum sínum í áratugi er sérkennilegt. Kjarnaatriði í lýðræðisþjóðfélagi er að stjórnvöld standi reikningsskil á gjörðum sínum og standi ábyrg gjörða sinna og orða.

Það er bagalegt þegar krafa er uppi um að stjórnvöld taki sig saman í andlitinu til að koma á trausti og sýna raunverulegan vilja til þess að axla ábyrgð og reyni að bæta úr þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur við almenning, að lagaskylda til að færa fundargerðir á háttbundinn og eðlilegan hátt er felld burt, og það í blóra við athugasemdir fagfólks. Síst var þörf á afturför í þessum efnum nú.

HS

Fundargerðir og traust og ábyrg stjórnsýsla