Einn best metni núlifandi skjalavörður Finna, Eljas Orrman, fór á eftirlaun í október 2011 og hélt opinn kveðjufyrirlestur  (á finnsku) 11. október sl. í gamla lestrarsal Ríkisskjalasafns Finna.

Í fyrirlestrinum beindi hann spjótum sínum að eyðingu skjala í persónuverndartilgangi. Hann minnti á umræðu sænskra skjalfræðinga árið 1940 um að helstu áhyggjur af eyðingu (grisjun) skjala væru að eyðingin feli í sér suppressio veri (leynd, pukur með sannleikann) og þar með suggestio falsi (vísvitandi hagræðingu sannleikans, villandi meðferð staðreynda).

Orrman taldi í fyrirlestrinum að upplýsingalögin finnsku með ákvæðum um lengd leyndar tryggðu persónuvernd (integritetsskydd) vel og var ánægður með að mögulegt væri skv. lögunum að fræðimenn og aðrir gætu nýtt sér skjöl við rannsóknir að uppfylltum nauðsynlegum skilyrðum. Hann minnti á ákvæði í upplýsingalögunum sem ætlað er að tryggja rannsóknarfrelsi.

Fyrirlesturinn vakti umræður og komu fram þungar áhyggjur af varðveislu mikilvægra persónuupplýsinga á rafrænu formi.

Byggt á Pertti Hakala: „En stor arkivpersonlighet höll avskedsföreläsning“ Nordisk arkivnyt nr. 4, 2011 bls. 163-164.

Vegna umræðna sem skapast hafa um fyrirhugaða setningu nýrra upplýsingalaga á Íslandi og laga um Þjóðskjalasafn Íslands er áhugavert að líta til finnsku upplýsingalaganna, m.a. 31. greinar þeirra þar sem kveðið er á um leynd skjala og þau tímamörk sem henni eru sett. Þau eru skemmri en áform eru uppi um hér á landi.

Óskráð og illa skráð skjöl geta horfið að geðþótta manna án þess að tekið verði eftir. Einnig geta skjöl glatast vegna óstöðugs forms. Að hafa opinber skjöl t.d. á rafrænu formi í lengri tíma kann að leiða til glötunar skjala. Þótt skýringin á glötuninni verði tæknilegs eðlis mun ávallt liggja grunur á um að stjórnvöld hafi komið upplýsingunum fyrir kattarnef. Fyrirhyggjuleysi, flónska og annað slíkt gildir ekki til að afsaka tjón sem verður á skjölum og upplýsingum í opinberri eigu. Óheimilt er að sýna glannaskap og fáfræði við opinbera skjalavörslu hvort heldur í lagalegu eða siðferðislegu tilliti.

Lykilatriði við að tryggja almenningi að rétt sé farið að við opinbera skjalavörslu eru öflugar skjalavörslustofnanir (Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfn) með skýrt eftirlitshlutverk með skjalavörslu stjórnvalda.

Eyðing skjala sem birtingarmynd pukurs og lyga