Sigurkarl Magnússon og Agnes Eydal afhenda Hrafni Sveinbjarnarsyni héraðsskjalaverði skjöl Sigurkarls Stefánssonar.

Hinn 20. mars sl. afhenti Sigurkarl Magnússon sonur hjónanna sr. Magnúsar Guðjónssonar (1926-2010) og Önnu Sigurkarlsdóttur (1927-2010) Héraðsskjalasafni Kópavogs fyrsta hluta skjala foreldra hans og hefur afhendingin, sem telur um 5 hillumetra, smám saman borist síðan. 14. júní sl. buðu Sigurkarl og kona hans Agnes Eydal Héraðsskjalasafninu svo að athuga hvort nokkuð af bókum þeirra Magnúsar og Önnu myndi gagnast í handbókasafni Héraðsskjalasafnsins. Fóru starfsmenn því á stúfana og reyndist svo vera, samtals gáfu þau skjalasafninu ríflega stórt hundrað bóka, aðallega á sviði héraðssögu og ættfræði, sem munu koma að góðum notum fyrir gesti á lestrarsal safnsins.
Við sama tækifæri afhenti Sigurkarl skjöl frá móðurafa sínum og nafna, Sigurkarli Stefánssyni (1902-1995). Hann var cand. mag. í stærðfræði, stjörnufræði, eðlisfræði og efnafræði frá Kaupmannahafnarháskóla, kunnur vísnagátuhöfundur og frumkvöðull í krossgátugerð á Íslandi. Hann kenndi við Menntaskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands.

GMH

Skjöl og bækur sr. Magnúsar Guðjónssonar og Önnu Sigurkarlsdóttur