Starfsmenn Borgarskjalasafns sem eiga þar lengstan starfsaldur: f.v. Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður, Guðjón Indriðason deildarstjóri skráningardeildar, Gunnar Björnsson skrifstofustjóri og Bergþóra Annasdóttir safnvörður. Ljósmynd: Jóhann Ólafur Kjartansson.

Hinn 19. maí sl. var haldið upp á 20 ára starfsafmæli Guðjóns Indriðasonar, deildarstjóra skráningardeildar Borgarskjalasafns Reykjavíkur. Hann rifjar upp ár sín á safninu í fróðlegu viðtali á heimasíðu Borgarskjalasafnsins.

Eftir að Guðjón hóf störf hjá Borgarskjalasafninu hafa því borist yfir 1.500 skjalaafhendingar, samtals um 6.000 hillumetrar, skv. aðfangadagbók. Guðjón hefur skráð eða haft hönd í bagga með skráningu á flestum skjalasöfnunum. Auk þess að skrá skjöl, hefur hann haft umsjón með móttöku safna og haldið utan um aðfangadagbók og skjalaskrár. Þá hefur hann veitt stofnunum borgarinnar símaráðgjöf og líklega heimsótt meirihluta stofnana borgarinnar. Einnig hefur hann farið inn á mörg heimilin að skoða skjalasöfn einstaklinga og verið í miklu sambandi við félagasamtök.

Lokaorð Guðjóns í viðtalinu eru:
„Stofnanir þurfa að taka sig á í skjalamálum. Þau varða svo miklu um réttindi og skyldur fólks og það hefur svo mikið að segja að skjölin varðveitist. Fólk þarf að bera virðingu fyrir því sem það hefur í höndunum. Ég hef þá trú að skilningurinn sé að aukast á því.“

20 ára ráðsmennska hjá Borgarskjalasafni