Vefur Norræna skjaladagsins 2010 er kominn í loftið. Opinber skjalasöfn á Norðurlöndunum hafa frá árinu 2001 sameinast um árlegan kynningardag sem er annar laugardagur í nóvember. Í ár er samnorrænt þema Veður og loftslag.

Mörg skjalasöfn á Norðurlöndum opna hús sín fyrir almenning á þessum degi og kynna starfsem sína. Félag héraðsskjalavarða á Íslandi er með opið hús í Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, Reykjavík frá 13 – 17.

Á Laugarvegi 162 er Þjóðskjalasafn Íslands með opið hús í samvinnu með Veðurstofu Íslands frá kl. 11 – 15.

Héraðsskjalasafn Akraneskaupstaðar er með opið hús, frá 11 – 14 að Dalbraut 1, í nýju húsnæði safnsins. Engin formleg dagskrá en skjöl frá Benedikt Tómassyni skipstjóra frá Skuld auk ljósmynda og skjala er tengjast hafnargerð á Skaganum á fyrri hluta 20. aldar verða til sýnis. Þá verður gestum boðið að skoða geymslur safnsins. Kaffi á könninni.

Héraðsskjalasafn Dalasýslu er með opið hús á Miðbraut 11, frá 13 – 16, þar sem starfsemi safnsins verður kynnt fyrir gestum og gangandi.

Héraðsskjalasafni Ísafirði í Gamla sjúkrahúsinu, Safnahúsinu Eyrartúni, opnar sýningunaHvass og rigning vestan í tilefni dagsins. Þar verða sýndar dagbækur Guðmundar Jónssonar lausamanns á Ísafirði sem skrifaði veðurfarslýsingar daglega frá hausti 1879 til 1910. Sýningin er á opnunartíma hússins frá 13 – 19 á virkum dögum og 13 – 18 á laugardögum og stendur út nóvember.

Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Nýheimum, Litlubrú 2, á Höfn í Hornafirði verður sýning á bókasafninu frá  13 – 16 þar sem fjallað er um baráttu manna við jökulárnar. Einnig verður opið hús á héraðsskjalasafninu og skjalageymslur til sýnis. Kaffi og með því. Sýningin verður höfð uppi á bókasafninu út nóvembermánuð.

Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja verður með sýningu á veðurbókum úr Stórhöfða, veðurbók frá frostavetrinum mikla og handriti Árna Árnasonar, símritara frá Grund af upphafi og fyrstu árum Stórhöfðavita. Sýningin verður opin á opnunartíma út nóvembermánuð.

Skjaladagur.is