Í dag þann 1. september 2010 tóku gildi gjörbreyttar reglur Dana varðandi rafræna skjalavörslu og langtímavarðveislu rafrænna skjala. Með þessum nýju reglum er skilaskyldum aðilum gert kleift að varðveita rafræn skjalasöfn í heild sinni og kostnaður við gerð vörsluútgáfna og langtímavarðveislu rafrænna skjala minnkar. Jafnframt er gagnaöryggi rafrænna skjala aukið.

Þjóðskjalasafn Íslands tók ákvörðun um að skilaskyldir aðilar á Íslandi, þar með talið sveitarfélög og stofnanir þeirra, skuli fylgja reglum Dana varðandi rafræna skjalavörslu. Þjóðskjalasafn lét þýða hinar nú úreltu dönsku reglur fyrir nokkrum árum og voru þær birtar í Stjórnartíðindum 23. júlí sl. og tóku gildi 1. ágúst 2010. Ekki er útlit fyrir að hinar nýju dönsku reglur verði teknar upp á næstunni.

Fyrir sveitarfélögin skiptir miklu máli að halda niðri kostnaði við rafræna skjalavörslu um leið og öryggi hennar sé ótvírætt. Það er brýnt hagsmunamál fyrir þau og aðra skilaskylda aðila að úr þessu sé bætt. Það er ekki hægt á meðan hinar nýsettu, nú úreltu reglur Þjóðskjalasafns eru í gildi. Því er brýnt hagsmunamál fyrir skilaskylda aðila að reglur Þjóðskjalasafns verði endurskoðaðar hið fyrsta.

Það er fagnaðarefni að Dönum hafi tekist að minnka kostnað og auka gagnaöryggi. Um leið er mikilvægt að rugla ekki saman rafrænni stjórnsýslu og rafrænni skjalavörslu. Rafræn stjórnsýsla getur grundvallast á pappírsskjalavörslu. Tilgangur rafrænnar stjórnsýslu er fyrst og fremst að auðvelda aðgang að upplýsingum og bæta þjónustu. Umræða um rafræna skjalavörslu hefur ýmist snúist um rafræna stjórnsýslu eða  tæknilegar útfærslur í stað þess að taka á grundvallarspurningum um skjalavörslu. Hafa verður hugfast að skjalavarsla snýst ekki aðeins um varðveislu upplýsinga, heldur um varðveislu á skjölum, en skjöl innihalda upplýsingar og fela jafnframt í sér sönnun á gildi þeirra.

Sjá nánar tengla um hinar nýju dönsku reglur:

Fréttatilkynning frá Statens arkiver: Nye regler sikrer bedre bevaring af kommuners og regioners arkivalier

Fréttatilkynning frá Statens arkiver: Kan historien om Danmark i Afghanistan skrives om 100 år?

Nýsettar reglur Þjóðskjalasafns um rafræna skjalavörslu úreltar