Fimmtudaginn 8. apríl opnaði ljósmyndasýning Héraðsskjalasafns Árnesinga Maður er nefndur í Listagjánni í Bókasafni Árborgar. Á sýningunni getur að líta valdar myndir út ýmsum skjala- og ljósmyndasöfnum í vörslu héraðsskjalasafnsins.

her_arn_syning2010

Þegar þeir félagar og glímukappar Þorgeir Jónsson í Gufunesi og Sigurður Greipsson í Haukadal voru nemendur á Íþróttaskólanum í Ollerup í Danmörku veturinn 1926-1927 æfðu þeir upp glímuflokk með nokkrum dönskum samnemendum sínum. Flokkurinn hélt sýningu í Nyborg 3. mars 1927 og er myndin tekin við það tækifæri. Á myndinni eru í fremri röð f.v. Jens Norskov, Þorgeir Jónsson og Ove Nilsen. Í aftari röð f.v. Egner Mogensen, Sigurður Greipsson, Kristian Jacobsen og Mogens Sommer. Heimildamaður Jón M. Ívarsson.

Myndirnar eru teknar á um 60 ára tímabili frá 1915 til 1975. Þetta eru mannamyndir teknar við ýmis tækifæri, s.s. útskrift, fundahöld, útilegur, afmæli o.fl. Flestar myndanna eru óskráðar. Gestir er hvattir til að koma upplýsingum um þá sem eru á myndunum til starfsmanna héraðsskjalasafnsins, þá er hægt að setja nöfn einstaklinga inn á myndir í sýningaskrá. Myndasýningin er líka á Facebook síðu safnsins, en þar er hægt að merkja einstaklinga (tag). Sýningin stendur út apríl í Listagjánni en fer eftir það á milli sveitarfélagana átta í Árnessýslu.

Ljósmyndasýning Héraðsskjalasafns Árnesinga