Héraðsskjalasöfn eiga skv. reglugerð um þau að skila ársskýrslu um starfsemi sína til Þjóðskjalasafns Íslands, sem fer með eftirlit með starfsemi þeirra. Einnig ber þeim að halda afhendingarbók um þau skjöl sem afhent eru. Nokkur héraðsskjalasöfn hafa um árabil gefið út ársskýrslur um starfsemi sína með listum yfir afhent skjöl og fjallað hefur verið um starfsemi þeirra á prenti. Einnig hefur Þjóðskjalasafn Íslands nýlega gefið út heildarsamanburðarskýrslu um héraðsskjalasöfn.

Þær skrár sem til eru útgefnar á prenti yfir skjalasöfn sveitarfélaga eru:

Skrá um skjalasöfn sýslumanna og sveitarstjórna. Bráðabirgðaskrár Þjóðskalasafnsins I: 1, Norður-Múlasýsla – Vestmanaeyjar, I: I,1 Norður-Múlasýsla – Vestmannaeyjar, I,2 Árnessýsla – Reykjavík, I,3 Akranes – Strandasýsla, I, 4 Húnavatnssýsla – Þingeyjarsýsla. Reykjavík 1973. Þessar skrár eru að stofni til þær sömu og birtust í Skrá um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík III. Reykjavík 1910, en með viðbótum. Í skránni sem kom út 1910 eru einnig skrár yfir skjöl Reykjavíkur sem Borgarskjalasafnið fékk til vörslu er það var stofnað. Sú skrá er nær nú yfir þau er: Lárus Sigurbjörnsson. Skjalasafn Reykjavíkurbæjar: Skrá um safnið röðuð eftir tugstafakerfi. Skjalasafn Reykjavíkurbæjar. Rit 2. Reykjavík 1957.

Gömul skjöl ýmissa hreppa er að finna í handritadeild Landsbókasafns Íslands (það má t.d. finna undir efnisorðinu „hagfræði“ í prentuðum skrám handritadeildarinnar). Einnig má þar finna ýmis sagnarit um sveitarfélög á Íslandi.

Annars vísast til þeirra skráa sem hvert héraðsskjalasafn hefur gefið út sem eru einkum heildaryfirlit í ársskýrslum um þau skjöl og skjalasöfn sem eru í vörslu héraðsskjalasafnanna og hvaðan þau hafa komið, þó er stundum um að ræða ýtarlegar skjalaskrár (innihald skjalasafna þ.e. fundargerðabækur, bréf o.s.frv.).

(Fyrirhugað er að birta skrá yfir þessi rit hér sem kafla 8.)

Þær skjalaskrár og yfirlit um skjalasöfn sem er aðgengilegt á rafrænu formi má finna á heimasíðum viðeigandi héraðsskjalasafna.

Loks má geta óprentaðrar skrár sem er til á héraðsskjalasöfnunum: Skrá yfir hreppsgögn frá 19. öld sem varðveitt eru á Þjóðskjalasafni Íslands og héraðsskjalasöfnum gerð af Ingibjörgu Ólafsdóttur árið 2004 sem verkefni í sagnfræði við Háskóla Íslands en ekki fékk hún upplýsingar til skrárinnar frá héraðsskjalasöfnunum á Siglufirði, Neskaupstað, Dalasýslu og ófullkomnar upplýsingar frá Hvammstanga. Skrá Ingibjargar er til í Þjóðskjalasafni Íslands og héraðsskjalasöfnunum. Hún byggist á þeim prentuðu skrám sem fyrir lágu og svörum frá héraðsskjalasöfnunum.