Hinn 24. október 1980 fól menntamálaráðherra þeim dr. Aðalgeiri Kristjánssyni skjalaverði í Þjóðskjalasafni, dr. Gunnari Karlssyni prófessor og Jóni E. Böðvarssyni borgarskjalaverði að gera tillögur um skjalavörslu hins opinbera og um þátt héraðsskjalavarða í henni.
Skv. áliti skjalavörslunefndar í september 1981 skyldi með nýjum lögum um Þjóðskjalasafn og héraðsskjalasöfn „stefnt að nánari tengslum en áður milli Þjóðskjalasafns og héraðsskjalasafna og lögð á Þjóðskjalasafn skylda til að tryggja að héraðsskjalasöfn verði starfandi söfn og ekki aðeins geymslustaðir.“
Í greinargerð með frumvarpi nefndarinnar segir um 14. gr. frumvarps hennar (sem samsvarar 12. grein núgildandi laga):
Samkvæmt gildandi lögum er sveitarfélögum það í sjálfsvald sett hvort þau afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín til varðveislu eða varðveita þau sjálf í héraðsskjalasafni sem sveitarfélögin kosta. Með ákvæði um að skjöl sveitarfélaga skuli annaðhvort afhent Þjóðskjalasafni eða varðveitt í héraðsskjalasafni, sem sérstök lög og reglugerð gilda um, er varðveisla þessara markverðu heimilda tryggð. Rétt þykir að sveitarfélögin haldi þessum rétti sínum. Þó er ákvæðið um héraðsskjalasöfn þrengt nokkuð í þessu frumvarpi frá því sem nú er. Samkvæmt gildandi lögum hafa sveitarfélög og sýslunefndir rétt til þess að stofna héraðsskjalasafn, ef þeim sýnist svo. Í þessu frumvarpi er heimild til handa stjórn Þjóðskjalasafns til þess að leyfa stofnun héraðsskjalasafns, séu fyrir hendi fullnægjandi aðstæður að mati safnstjórnar. Mörg þeirra héraðsskjalsafna, sem stofnuð hafa verið, eru vanburðug og í sumum tilvikum ekki annað en nafnið tómt. Því er æskilegt að sveitarfélög sameinist tvö eða fleiri um stofnun héraðsskjalasafns. Samkvæmt 14. gr. þessa frumvarps getur safnstjórn Þjóðskjalasafns stuðlað að slíkri samvinnu þar eð hún getur neitað um leyfi til stofnunar héraðsskjalasafns ef henni sýnist svo. Að öðru leyti eru í frumvarpi þessu litlar breytingar á gildandi ákvæðum um héraðsskjalasöfn.
Um héraðsskjalasöfn er fjallað í greinargerð þjóðskjalasafnsnefndar sem sett var 3. apríl 1982 og í sátu Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri í Menntamálaráðuneytinu, Bjarni Vilhjálmsson þjóðskjalavörður og Bjarni Einarsson framkvæmdastjóri byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins. Tillögum sínum skilaði nefndin í formi lagafrumvarps ásamt greinargerð 19. mars 1984 (11. greinin þá samsvarar 12. grein laganna nú og 15. greinin samsvarar 16. grein laganna nú):
Um 11. gr. Gert er ráð fyrir að héraðsskjalasöfn létti verulega safnstörfum af Þjóðskjalasafni og verði jafnframt til þess að auðvelda mönnum víðsvegar um land aðgang að safngögnum og ýti þannig undir fræðistörf. Hafa héraðsskjalasöfn starfað um alllangt skeið og þyrfti að efla þau með auknum fjárframlögum.
Um 15. gr. Vera má að rétt væri að ákveða hvert vera skuli hlutfall ríkisframlags á móti framlagi heimaaðila til héraðsskjalasafna, en hér er þó farin sú leið að slík framlög skuli ákveðin í fjárlögum hverju sinni og geta þá verið misjöfn til safnanna eftir ástæðum.
Álit og tillögur þessara tveggja nefnda voru lögð til grundvallar lögum nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands. Þau lög leystu lögin um héraðsskjalasöfn frá 1947 af hólmi og ný reglugerð nr. 283/1994 um héraðsskjalasöfn var sett af menntamálaráðherra. Gilda þau lög og reglugerð enn.
Ekki eru þó allir landshlutar með sérstakt héraðsskjalasafn og gegnir þá Þjóðskjalasafnið hlutverki héraðsskjalasafns þar skv. 5 grein laga nr. 66/1985. Með þessu var reynt að tryggja öryggi skjala sveitarfélaga á öllu landinu með því að hindra lausung í meðferð þeirra.
Við stofnun héraðsskjalasafna hefur Þjóðskjalasafn Íslands afhent til hinna nýju héraðsskjalasafna þau skjöl þeirra sveitarfélaga sem að því standa, sem fyrir voru í vörslu Þjóðskjalasafnsins.
Frá árinu 1995 hafa héraðsskjalasöfn fengið sérstakt framlag frá ríkinu á fjárlögum ár hvert.