Heildarafskipti af skjalavörslu sveitarfélaga á Íslandi undir einni yfirumsjón hófust árið 1900.
Frá árinu 1882 hafði verið til Landsskjalasafn sem landritari, þ.e. ritari Landshöfðingja, hélt utan um. Þetta Landsskjalasafn varð Þjóðskjalasafn Íslands árið 1915.
Tímamót urðu í sögu Landsskjalasafnsins er sérstakur landsskjalavörður var ráðinn til þess árið 1900. Jón Þorkelsson landsskjalavörður samdi reglugerð um starfsemi safnsins sem gefin var út 10. ágúst árið 1900 og er þar í fyrsta skipti kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að skila skjölum sínum 30 ára og eldri til opinberrar skjalavörslustofnunar. Jón Þorkelsson gekk eftir því að skjölunum yrði skilað til Landsskjalasafnsins.
Árangur starfs hans birtist í þriðja bindi Skrár um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík árið 1910. Á bls. 235-272 eru skrár yfir skjöl hreppa og sveitarfélaga á landinu sem komin voru í vörslu Landsskjalasafnsins. Sömuleiðis var skrá yfir skjöl Reykjavíkur, bæjarfógetans, bæjarstjóra og bæjarstjórnar birt á bls. 114-136. Voru þetta fyrstu opinberlega birtu skrár yfir skjalasöfn íslenskra sveitarfélaga.
Í formála á bls. XXIV segir Jón Þorkelsson:
Skjalasöfn hreppa og sveitarfélaga gætu ekki síður verið forn en sýslnasöfnin, ef þau hefði geymzt vel. En þar var góðrar geymslu öllu minni von. Þó er hrein furða, hvað gömul þau eru sumstaðar svo sem hreppsbækur úr Reykholtsdal óslitnar síðan 1643 og úr Hálsasveit síðan 1684.
Aftan á kápu Skrár um skjöl og bækur í Landsskjalasafninu í Reykjavík III. Reykjavík 1910 er þessi auglýsing.
Starf Jóns Þorkelssonar hefur án efa bjargað skjölum margra sveitarfélaga frá glötun.
Á grundvelli fyrstu laga um Þjóðskjalasafn Íslands árið 1915 var sett reglugerð nr. 5/1916 um Þjóðskjalasafnið, sem þrátt fyrir háan aldur og ýmsa galla er enn í gildi að svo miklu leyti sem lög segja ekki til um annað. Þar var kveðið á um að skjölum sveitarfélaga 20 ára og eldri skuli skilað til Þjóðskjalasafnsins.