Skv. 25. grein sveitastjórnarlaga nr. 43/1905 skyldu oddvitar hreppsnefnda sjá um vörslu skjala hennar. Í 49. grein laganna segir:

Hreppsnefnd hver heldur þessar bækur:
1. Sveitarbók. Í hana skal rita:
a. skýrslu um það, er gjörist á nefndarfundum, mál þau, er nefndin tekur fyrir, og ályktanir um þau.
b. ársreikninga hreppsins með athugasemdum endurskoðenda, svörum reikningshaldara og úrskurðum sýslunefndar, ennfremur aðra reikninga hreppsins, svo og niðurjöfnunarskrár, og um ráðstöfun ómaga og meðlag með þeim, þurfamannastyrk og annað er að þessu lýtur, og allar skýrslur.
2. Brjefabók, sem rita skal í orðrjett þau brjef, er nefndin (oddvitinn) ritar öðrum.
3. Kassabók, sem rita skal í allar peningaupphæðir, sem sveitarsjóður fær eða geldur út.
4. Dagbók yfir innkomin brjef eptir fyrirmynd, er sýslunefnd býr til.
5. Kjörbók, til að rita í atkvæði til hreppsnefndarkosningar.
Bækur þessar skulu vera löggiltar af sýslumanni, og rannsakar hann þær árlega. Andvirði þeirra greiðist úr sveitarsjóði.

Sýslumaður var oddviti sýslunefndar og sem slíkur ábyrgur fyrir vörslu skjala hennar skv. 67. grein laga nr. 43/1905.

Áþekk ákvæði eru í sveitarstjórnarlögum nr. 12/1927, þ.e. í 9. grein, 24. grein og 37. grein. Í sveitarstjórnarlögum nr. 58/1961 eru ekki eins skýr ákvæði um vörsluskyldu skjala (39. gr. og 102. gr.) og aðeins bókhaldsskjöl eru talin upp í 49. og 50. gr. laganna.

Sveitarstjórnarlög nr. 8/1986 eru eins og hin fyrri lög að þessu leyti (53. gr.) en ekki eru skjöl talin upp sérstaklega nema fundargerðabók (64 gr.). Sérstakt ákvæði er um aðgengi sveitarstjórnarmanna að skjölum (41. gr.).

Sveitarstjórnarlög nr. 45/1998 eru áþekk fyrri lögum nema að því leyti að sérstök áhersla er lögð á fundargerðir umfram önnur skjöl (22. og 23. gr.) og ákvæði er sem fyrr um aðgengi sveitarstjórnarmanna að skjölum (30. gr.).

Með þessu hefur verið tæpt á meginatriðum sveitarstjórnarlaga um skjalavörslu sveitarfélaga á 20. öld. Þess ber að gæta að fyrirmæli sveitarstjórnarlaga um bókhaldsskjöl í tengslum við endurskoðun reikninga eru meðal þess sem ekki er tíundað hér, en bókhaldsskjöl hafa ávallt verið mikilvægur hluti skjalasafna sveitarfélaga.

Ekki má gleyma því að önnur lög hafa haft áhrif á skjalavörslu sveitarfélaga einkum á seinni hluta 20. aldar. Nefna má lög nr. 7/1947 um héraðsskjalasöfn, lög nr. 63/1981 um kerfisbundna skráningu upplýsinga er varða einkamálefni, lög nr. 39/1985 um kerfisbundna skráningu upplýsinga er varða einkamálefni, lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands, lög nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, stjórnsýslulög nr. 37/1993, upplýsingalög nr. 50/1996 og lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.