Hreppar teljast meðal elstu opinberu stjórnsýslueininga og félagsskapar á Íslandi. Má rekja sögu þeirra aftur á 11. öld, en þeir eru þá nefndir í tíundarlögum. Þeir eru þó taldir eldri. Þar sem ritmenning komst á með kristnitöku á Íslandi má ætla að skjöl hafi snemma myndast við starfsemi þeirra, en allt er óljóst um það framan af. Elsta varðveitt skjal hrepps á Íslandi er hreppsbók frá árinu 1643.


Hreppsbók Reykholtsdalshrepps með tíundarskrá, 1643-1785. Bókbandið er frá byrjun 20. aldar líklega unnið á bókbandsstofunni í Safnahúsinu í Reykjavík. Titilblaðið er með hendi Jóns Þorkelssonar þjóðskjalavarðar, neðst glittir í stimpil Landsskjalasafnsins í Reykjavík sem síðar varð Þjóðskjalasafn Íslands, þar var bókin varðveitt frá upphafi 20. aldar þar til Héraðsskjalasafn Borgfirðinga tók til starfa árið 1961. Myndirnar eru frá Héraðsskjalasafni Borgfirðinga þar sem bókin er varðveitt.
hreppsbok4

Hreppsbók Reykholtsdalshrepps með tíundarskrá, 1643-1785. Sjá má viðgerðir frá bókbandsstofunni í Safnahúsinu, frá því fyrir árið 1961, á jöðrum blaðanna.


Textabútur úr Hreppsbók Reykholtsdalshrepps með tíundarskrá, 1643-1785.

Stiftamtmaður gaf út tilskipun um færslu hreppsbóka 26. desember 1785 og kansellíbréf um færslu slíkra bóka var gefið út 11. júlí 1789.
Tímamót urðu með svokölluðu Hreppstjórainstrúxi, eða Instruction for Repstyrerne i Island, 24. nóvember 1809. Frá 1809 til 1872 var ekki um sjálfstæða stjórn íbúa sveitanna að ræða í málefnum þeirra, hreppstjórar og aðrir ríkisstarfsmenn höfðu alla stjórn þeirra í hendi sér. Samkvæmt Hreppstjórainstrúxinu 1809 áttu hreppstjórar að færa hreppsbók (með fjárhagsbókhaldi) og sinna virðingum og uppskriftum, skoðanagjörðum, úttektum og uppboðum að ógleymdri bréfagerð með tilheyrandi bréfabókum og bréfasöfnum.
Með tímanum varð skjalamyndun sveitarfélaga margbrotnari, einkum í kaupstöðum. Reykjavík hlaut fyrst kaupstaðarréttindi árið 1787 og stýrði bæjarfógeti kaupstaðnum en kallaði saman borgarafundi eftir þörfum. Árið 1822 voru skipaðir sérstakir embættismenn í þágu stjórnsýslu bæjarins og frá 1828 voru kjörnir borgarar hafðir bæjarfógeta til ráðuneytis. Allt var þetta sniðið að Norsku lögum og danskri löggjöf.
Í kaupstöðunum tóku til starfa bæjarstjórnir, fyrst í Reykjavík 1836 en eftir það um leið og þeir voru stofnaðir, Akureyri 1862, Ísafirði 1866 og Seyðisfirði 1894 o.s.frv.
Með tilskipun um sveitarstjórn á Íslandi 4. maí 1872 voru aftur stofnuð félög um stjórn sveitanna. Í henni eru ákvæði um skjöl í 11. grein þar sem kveðið er á um að oddviti skuli „… varðveita allar gjörðabækur nefndarinnar, bréf og önnur skjöl eða skilríki, er snerta þau mál, sem eru lögð undir hreppsnefndina.“ Í 35. grein er kveðið á um sömu skyldu oddvita sýslunefndar.