Sérstakar almennar breytingar í skjalavörslu sveitarfélaga urðu ekki fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari þegar áhrifa af því sem erlendis hefur verið kallað büroreform (skrifstofuumskiptin) tók að gæta á Íslandi, með stóraukinni skjalamyndun í stjórnsýslunni og tilkomu nýrra skráningaraðferða.

Viðbrögð við þessu hjá sveitarfélögum urðu þó ekki samræmd, sumstaðar voru stofnuð héraðsskjalasöfn, en þau voru einnig stofnuð vegna menningarlegs áhuga á átthaga- og byggðasögu.

Sveitarfélög bjuggu við sífellt betri húsakost eftir því sem leið á 20. öldina og hvatning af hálfu Þjóðskjalasafns til skila skjala sveitarfélaga virðist hafa dvínað með árunum, m.a. vegna þess að húsnæði Þjóðskjalasafnsins hrökk ekki lengur til starfseminnar. Sveitarfélög höfðu því í vörslu sinni æ meira af skjölum eftir því sem skjalamyndun jókst og loks yfirfullar geymslur.

Þar sem myndarskapur og menning var mest tóku menn það ráð að stofnsetja héraðsskjalasöfn til að bregðast við þessum vanda. Annars staðar virðist þó stundum hafa verið gripið til óyndisúrræða og er viðbúið að skjalatjón hafi orðið víða þar sem ekki hefur verið tímanlega farið út í stofnun héraðsskjalasafns. Oft hefur framtak menningarlegra og framsýnna einstaklinga orðið til þess að bjarga skjölum og orðið upphaf að stofnun héraðsskjalasafna.

Skagfirðingurinn Jón Sigurðsson, alþingsmaður á Reynistað, lagði fram frumvarp til laga sem samþykkt var sem lög nr. 7/1947 um héraðsskjalasöfn.

Jón mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi 30. október 1946 með þessum orðum:

Þetta mál er, sem hið fyrra á dagskrá þessarar d[eildar], heimildarlög. Meginatriði þessa máls eru í fyrsta lagi, að enn fleiri skjölum verði komið til geymslu utan kaupstaðanna og einkum Reykjavíkur en nú er gert, og í öðru lagi að tryggja öruggari geymslu bóka, handrita og skjala. Rök þau er lúta til þessarar breyt[ingar] eru:

1. Þjóðskjalasafninu berst nú orðið svo mikið frá embættis- og starfsmönnum ríkisins og nefndum, sem skipaðar eru af ríkisstj[órninni], að vandkvæði eru nú á að varðveita það allt saman þannig, að það verði aðgengilegt fyrir þá, sem óska að nota þessi skjöl. Það virðist því ekki ástæða til að draga að þjóðskjalasafninu enn þá fleiri fl okka skjala og bóka, ef kostur er á góðri geymslu annars staðar.

2. Á nokkrum stöðum utan Reykjavíkur eru nú þegar bókhlöður, sem hæfar eru til skjalageymslu. Loks er óvarlegt af öryggisástæðum að safna öllum skjölum og heimildum á einn stað, ef eldsvoða eða önnur stór óhöpp ber að höndum, enda mun það ekki gert í nágrannalöndum okkar. Hugsum okkur, ef það kæmi fyrir, að ein hinna stóru, útlendu flugvéla, sem sveima daglega yfir Reykjavík, hrapaði á Safnahúsið. Margt mundi þá farast og landið rúið að gömlum menningarverðmætum. Í stríðinu þótti ekki tryggt að geyma slík skjöl hér í Reykjavík. Það er hvergi tíðkað að flytja öll skjöl og bækur á einn stað. Erlendis eru sérstök borgarskjalasöfn og héraðsskjalasöfn. Þetta, að flytja öll skjöl á einn stað, var eðlileg ráðstöfun á sínum tíma. Ég tel, að nú eigi bæði kaupstaðir og héruð að hafa fullan rétt til að fá skjöl og bækur nefnda, sem skilað hefur verið, ef þeir geta sjálfir geymt þau örugglega. Forstöðu menn héraðsstjórnanna hafa líka betri kunnugleika á málum héraða sinna en mennirnir á þjóðskjalasafninu. Miklar líkur væru þá til þess, að miklu væri þá bjargað, sem annars færi forgörðum.

Í fr[umvarpinu] er lagt til, að skipting bóka og skjala milli þjóðskjalasafnsins og héraðsskjalasafn a verði á þá leið, að þjóðskjalasafnið taki til vörzlu skjöl og embættisbækur allra starfsmanna ríkisins annarra en hreppstjóra, en afrit af flestum skýrslum þeirra eru í skjalasöfnum sýslumanna, hagstofunnar og ríkis skattanefndar, og þykir því ekki ástæða til að taka skjöl og bækur þeirra með. Enn fremur taki þjóðskjalasafnið við bókum og skjölum opinberra nefnda, ef starfssvið þeirra tekur til margra héraða eða alls landsins. Það er lögð áherzla á, að bækur héraðsnefnda verði geymdar í héruðunum sjálfum, en þó sé þjóðskjalaverði heimilt að grípa hér inn í, ef honum finnst af gildum ástæðum varðveizla skjala í héraði ónóg sökum lélegra húsakynna eða annars.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að segja þetta. Þetta mál er í mínum augum mikið metnaðarmál, að héruðin láti ekki gjörrýja sig að öllum heimildum um sögu sína…

(Alþingistíðindi 1946 B deild dlk. 1320-1321, nánari greinargerð með frumvarpinu er í Alþingistíðindum 1946 A deild bls. 151-153.)

Jón Sigurðsson á Reynistað
Jón Sigurðsson á Reynistað (1888-1972)
Myndin er frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Fyrsta héraðsskjalasafn sem stofnað var á Íslandi var Héraðsskjalasafn Skagfirðinga árið 1947.

Á grundvelli laganna frá 1947 var sett reglugerð nr. 61/1951 um héraðsskjalasöfn. Með lögum nr. 13/1969 um Þjóðskjalasafn var áhersla lögð á ákvæði laganna frá 1947 um yfirumsjón Þjóðskjalasafnsins með héraðsskjalasöfnum.

Frá árinu 1947 hefur héraðsskjalasöfnum fjölgað frá einu í að verða 20 talsins árið 2001.

Héraðsskjalasöfn á Íslandi í lok ársins 2008

Stofnár, heiti og staður
1 – 1947 Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, Sauðárkróki
2 – 1952 Héraðsskjalasafnið Ísafirði
3 – 1954 Borgarskjalasafn Reykjavíkur
4 – 1958 Héraðsskjalasafn Þingeyinga, Húsavík
5 – 1961 Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar
6 – 1963 Héraðsskjalasafn Vestur-Húnavatnssýslu, Hvammstanga
7 – 1965 Héraðsskjalasafn Austur-Skaftafellssýslu, Höfn í Hornafirði
8 – 1966 Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu, Blönduósi
9 – 1969 Héraðsskjalasafnið á Akureyri
10 – 1976 Héraðsskjalasafn Austfirðinga, Egilsstöðum
11 – 1980 Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja
12 – 1980 Héraðsskjalasafn Svarfdæla, Dalvík
13 – 1984 Héraðsskjalasafn Siglufjarðar
14 – 1985 Héraðsskjalasafn Neskaupstaðar
15 – 1985 Héraðsskjalasafn Árnesinga, Selfossi
16 – 1988 Héraðsskjalasafn Rangæinga og Austur-Skaftfellinga, Skógum
17 – 1993 Héraðsskjalasafn Dalasýslu, Búðardal
18 – 1993 Héraðsskjalasafn Akraness
19 – 2000 Héraðsskjalasafn Kópavogs
20 – 2001 Héraðsskjalasafn Mosfellsbæjar