Til að vernda einkalíf og persónuöryggi togast ósjaldan á sjónarmið um leynd og opinberun.

Skattheimta og löggæsla stjórnvalda hefur ávallt haft í för með sér gagnasöfnun og gagnavinnslu t.d. í formi manntala og skýrslna. Fátækraframfærsla, félagsþjónusta og heilbrigðisþjónusta einnig að ógleymdri útgáfu vegabréfa og skilríkja.

Leyniþjónustustarfsemi sem sinnir njósnum og eftirliti hefur falið í sér gagnasöfnun og samtengingu gagna án vitundar þeirra sem hlut hafa átt að máli. Skipuleg glæpastarfsemi felur þetta einnig í sér.

Möguleikar til að meðhöndla og tengja auðveldlega saman gögn hafa aukist verulega með framförum í gagnatækni. Fyrst spjaldskrártækni Linnés á 18. öld og svo iðnvæðingu sem telja má að hefjist með gataspjaldatækni Holleriths undir lok 19. aldar og leiddi loks til nútímalegrar tölvutækni í meðhöndlun gagna.

Þessa tækni má nýta til góðra verka og framfara en einnig hins andstæða. Gagnagrunnar í höndum stjórnvalda eru því ýmist lofaðir eða lastaðir. Á Íslandi kom löggjöf um þetta til sögunnar árið 1981 með lögum um kerfisbundna skráningu á upplýsingum er varða einkamálefni (nr. 63/1981) og með þeim var stofnuð tölvunefnd, lögin voru leyst af hólmi með lögum nr. 121/1989. Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77/2000 tóku svo við af þeim.

Persónu- eða gagnavernd er að sumu leyti andstæð upplýsingafrelsi þ.e. gagnsæi stjórnsýslu sem grundvallast á opinberun skjala sem meginreglu. Hún er kostnaðarsöm og stendur því að nokkru gegn kostnaðarmarkmiðum skilvirkrar stjórnsýslu, en á móti kemur að kostnaðarsamt kynni að reynast að vera án hennar á óbeinan hátt. Efnahagslegt kostnaðarmat á réttinum til einkalífs er t.d. erfitt að gera.

Baráttan gegn glæpum er að sumu leyti torvelduð með slíkri vernd, vísindarannsóknir og læknisfræðilegar rannsóknir einnig. Persónu- og gagnavernd er stefnt gegn eftirlitsþjóðfélagi þar sem stjórnvöld eru með nefið ofan í hvers manns koppi.

Nokkur vandi hefur fylgt vegsemdum gagnatækni við skjalahald og starfsemi stjórnvalda bæði hvað snertir rétt borgaranna til einkalífs, persónuöryggi þeirra og upplýst samþykki við notkun viðkvæmra persónuupplýsinga. Hér fylgja nokkrir tenglar er þetta varða.

Persónuvernd

Miðlægur gagnagrunnur á heilbrigðissviði

Alþjóða einkalífssamtökin – Privacy international

Stórabróðurverðlaunin – Big Brother Awards

IBM og helförin – IBM and the Holocaust