Margir eru nú að taka upp nýjustu útgáfu Windows stýrikerfisins, Windows 10. Erlendis hefur þetta kerfi hlotið gagnrýni þar sem það felur í sér aðferðir sem kunna að ógna gagnaöryggi og einkalífshagsmunum, þ.e. með því að láta lykilþætti í kerfinu byggjast á skýjavistun. Hér má sjá grein um þetta eftir David Auerbach „Broken Windows Theory“, í ágústútgáfu Bitwise árið 2015. Þetta vekur spurningar um það hvort opinber stjórnvöld sem fjalla um viðkvæm málefni og hagsmunamál ýmissa einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja geti notað þetta stýrikerfi með ábyrgum hætti. Í greininni er bent á nokkur atriði sem vert er að hafa í huga í þá átt.

Áður hefur verið fjallað um notkun skýsins hér á þessum vettvangi.

Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort tímabært sé að opinber stjórnvöld horfi til annarra stýrikerfa eins og Linux. Forstöðumenn á hverjum stað bera skv. lögum um opinber skjalasöfn ábyrgð á skjölum og gögnum stjórnvalda í hvívetna og verða því að vera á varðbergi gagnvart virkni hugbúnaðar sem notaður er hverju sinni hvað öryggismál varðar.

Stýrikerfi í skýjunum og ábyrgð á opinberum gögnum