Vanræksla vegna langvarandi fjársveltis í opinberri skjalavörslu er vandi sem er að miklu leyti hulinn almenningssjónum og nær ekki þeirri tilfinningaþrungnu athygli sem atburðir og örlög einstaklinga fá í fjölmiðlum. Þessum vanda mætti líkja við burðarstoð sem stöðugt gengur á vegna ónógs viðhalds og getur á endanum brostið óvænt með miklum afleiðingum. Ýmis grundvallaratriði borgaralegs samfélags  m.a. eignarréttindi og mannréttindi eru um margt háð opinberum skjalasöfnum. Tjáningarfrelsi er háð því að áreiðanlegar upplýsingar um gjörninga stjórnvalda liggi fyrir og er opinberum skjalasöfnum ætlað að tryggja það annars vegar með varðveislu skjalasafna og hins vegar með eftirliti með myndun og vörslu skjala stjórnvalda. Vörsluhlutverkið gerir opinber skjalasöfn að forðabúrum sagnaritunar og sagnfræðirannsókna. Forsenda þess að þau gegni hlutverki sínu er nægilegt fé til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að sinna.

Héraðsskjalaverðir hafa sett fram óskir um hækkað ríkisfjárframlag til héraðsskjalasafnanna í fjárlögum ársins 2016 í tveimur bréfum til fjárlaganefndar í nóvemberlok 2015.

Bréf allra héraðsskjalavarða til fjárlaganefndar 26. nóvember 2015

Bréf fjögurra héraðsskjalavarða til fjárlaganefndar 24. nóvember 2015

Með auknum skyldum héraðsskjalasafna m.a. vegna tilfærslu verkefna frá Þjóðskjalasafni til héraðsskjalasafna undanfarin ár og með lögum um opinber skjalasöfn nr. 77/2014 hafa ekki fylgt aukin fjárframlög frá ríkinu til héraðsskjalasafna. Þess má geta að Þjóðskjalasafnið hafði ekki fengið fjárveitingar með þær skyldur í huga sem nú hefur verið velt yfir á héraðsskjalasöfnin. Áratuga uppsafnaður vandi hefur því lagst á héraðsskjalasöfnin með föstum skyldum án aukningar á því fé semþau hafa til starfsemi sinnar. Úr þessu verður að bæta.

Starfsemi héraðsskjalasafna líður skort