haseti5

Í síðustu viku var Héraðsskjalasafninu á Akureyri færð gjörðabók Hins eyfirska ábyrgðarfélags frá árunum 1867 til 1876. Í henni segir m.a. frá því að þrír undirbúningsfundir að stofnun félagsins voru haldnir frá 1. nóvember 1867 til 14. janúar 1868 en stofnfundurinn var haldinn 14. febrúar 1868.

Bókin hefst á þessum orðum: „ Það hafði lengi verið almenn ósk þiljuskipaeigenda á Norðurlandi, frá því farið var að koma þar upp þesskonar skipum til hákarlaveiða, að geta fengið ábyrgð á þeim eins og tíðkanlegt er í öðrum löndum.“

Að öðrum ólöstuðum voru þrír menn hvað duglegastir við að koma félaginu á fót, þeir Bernhard Steincke verslunarstjóri á Akureyri, Tryggvi Gunnarsson þá trésmiður, bóndi og hreppstjóri í Hálshreppi, síðar alþingismaður og bankastjóri og Einar Ásmundsson gullsmiður, bóndi, kennari í sjómannafræði og alþingismaður í Nesi  í Höfðahverfi. Þessir menn skipuðu einnig fyrstu stjórn félagsins.

Á stjórnarfundinum voru samþykkt lög félagsins, erindisbréf virðingarmanna, skuldbinding skipseigenda, skuldbinding skipstjóra og skuldbinding háseta.

Þessi gjörðabók veitir góða innsýn í sögu útgerðar, sjómennsku og sjómannaskóla á þessum tíma, hverjir stóðu þar í eldlínunni og hvað þeir voru að fást við.

Hið eyfirska ábyrgðarfélag gekkst fyrir því að settur var á stofn sjómannaskóli sem útskrifaði nemendur vorin 1871 og 1872. Skólinn var haldinn að Haganesi í Fljótum því að þar bjó þá Jón Loftsson sem best þótti fallinn til að veita þessa fræðslu.  Jón hafði numið hjá Torfa Halldórssyni á Ísafirði og síðan lokið prófi í siglingafræði í Kaupmannahöfn.

Gjörðabók Hins eyfirska ábyrgðarfélags afhent á Héraðsskjalasafnið á Akureyri