Nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga

safnahusmyndir09_skagafj

Sólborg Una Pálsdóttir tók til starfa sem nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga nú í ágúst.  Hún er sagnfræðingur frá Háskóla Ísland. Árið 2003 útskrifaðist hún með MSc. gráðu í upplýsingatækni í fornleifafræði (Archaeological information System) frá Háskólanum í York og hefur einnig sótt fjölmörg námskeið um upplýsingakerfi, uppbyggingu gagnagrunna o.fl

Síðustu ár hefur Sólborg starfað hjá Minjastofnun (áður Fornleifavernd) við stöðlun, skráningu og miðlun upplýsinga um fornleifar á Íslandi. Þá hefur hún reynslu að skráningu muna og fornleifa í gangagrunna og hefur haldið fjölda fyrirlestra og ritað greinar um sagnfræðileg og fornleifafræðileg efni.

Sólborg er boðin velkomin til starfa og Unnari Ingvarssyni, sem hefur snúið sér að öðru eftir 14 ára farsælt starf sem héraðsskjalavörður Skagfirðinga, er þakkað ánægjulegt og gefandi samstarf.

 

Ný lög um opinber skjalasöfn

lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hafa verið sett nú í maí og leysa af hólmi lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og að nokkru upplýsingalög nr. 50/1996, en með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012 var tekin sú ákvörðun að danskri fyrirmynd að skipta löggjöf um upplýsingarétt á milli upplýsingalaga og laga um opinberar skjalavörslustofnanir. Hefur því verið haldið fram að með þessu myndist “heildstæðari rammi um upplýsingarétt almennings” sem vekur undrun því tvenn lög eru tæplega heildstæðari en ein.

Hin nýju lög um opinber skjalasöfn hafa í för með sér ýmsar breytingar er varða skjalavörslu sveitarfélaga og stöðu héraðsskjalasafna.

Í nýju lögunum er beinlínis kveðið á um að héraðsskjalasafn sé sjálfstætt opinbert skjalasafn og að það skuli hafa eftirlit með með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir þangað um skjöl sín. Skv. hinum eldri lögum nr. 66/1985 var sjálfstæði héraðsskjalasafna aðeins á grundvelli reglugerðar og eftirlitshlutverkið framselt héraðsskjalasöfnum af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérstaða þeirra og sjálfstæði að lögum hefur því aukist frá því sem áður var.

Umdeilt er hvort afhendingarskylda til héraðsskjalasafna hefur aukist eða minnkað við þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað með upplýsingalögum nr. 140/2012 og þessum nýju lögum, vegna ágreinings um túlkun hinna fyrri laga nr. 66/1985. Skýrari viðmið um eignarhald skilgreina nú afhendingarskylduna.

Sérstakar refsiheimildir eru komnar í lögin er varða þagnarskyldu og vanrækslu á vörslu skjala en áður varð aðeins byggt á almennum hegningarlögum hvað varðaði tjón á eigum hins opinbera þegar skjöl voru annars vegar.

Ákvörðunarvald um eyðingu opinberra skjala er nú aðeins í höndum þjóðskjalavarðar en var áður í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands og þar áður háð samþykki landsstjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer ekki lengur með yfirstjórn Þjóðskjalasafnsins og er nú þjóðskjalaverði aðeins til ráðgjafar.

Staða Þjóðskjalasafns Íslands og skjalavörsluskyldu hefur veikst að því leyti að Alþingi og umboðsmaður Alþingis lúta nú ekki lengur lögum um opinbera skjalavörslu og skjalavarsla þeirra er ekki bundin neinni löggjöf. Skjalavarsla löggjafarsamkomunnar er því laus undan lögum. T.d. kemur ekki skýrt fram í lagatextanum hvort ríkisendurskoðun, sem er ein stofnana Alþingis eigi að lúta þessari löggjöf.

Lögin hafa að geyma meiri texta en fyrri löggjöf. Þau eiga sér nokkurn aðdraganda, en heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands hófst með því að menntamálaráðherra skipaði starfshóp um hana 24. september 2008 og drög laganna voru sett í almennt umsagnarferli í desember 2010, þá fyrst höfðu héraðsskjalaverðir tækifæri til að koma faglegum sjónarmiðum sínum að. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um ýmsa þætti laganna sem snerta fagleg efni, almannahag og upplýsingaöryggi eins og hefur komið fram áður á þessum vef. Sumt í hinum nýju lögum er óneitanlega til bóta, en ljóst er að betur hefði mátt standa að undirbúningi lagasetningarinnar með samstarfi við héraðsskjalasöfnin þegar í upphafi. Lögin eru ekki gallalaus, en eftir þeim starfa opinber skjalasöfn nú.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2014

Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.

Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.

Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Ljósmyndavefur Austfirðinga

Í maílok 2014 hleypti Héraðsskjalasafn Austfirðinga af stokkunum ljósmyndavef á þessari slóð myndir.heraust.is.

Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins. Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

Staða héraðsskjalavarðar Skagafjarðar laus til umsóknar

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir laust til umsóknar starf héraðsskjalavarðar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Héraðsskjalavörður er forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Hann leiðir starfsemi safnsins og sér um fjárhagslegan rekstur þess.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í sagnfræði eða skyldum greinum.
  • Gerð er krafa um mjög góða almenna tölvukunnáttu og æskilegt að viðkomandi hafi þekkingu á notkun tölvuforrita, s.s. Navision, OneSystems, Fotostation, Photoshop og Office.
  • Umsækjandi þarf að hafa góð tök á íslensku máli í ræðu og riti og hafa ríka samskiptahæfileika.
  • Æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu og reynslu í rekstri opinberra stofnana.
  • Þekking og áhugi á skagfirskri sögu er kostur.

Um 100% starf er að ræða.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum BHM við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 15. júní 2014.

Umsóknum sem greina frá menntun og fyrri störfum skal skila í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is (störf í boði) eða í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður, unnar@skagafjordur.is , eða í síma 892-6640 og Hrefna G. Björnsdóttir, mannauðsstjóri,  hrefnag@skagafjordur.is eða í síma 455-6065.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er elsta héraðsskjalasafn landsins, stofnað árið 1947. Safnið varðveitir stærsta safn einkaskjala utan Reykjavíkur auk mikils magns opinberra heimilda og ljósmynda. Fjölmargir gestir sækja safnið heim árlega. Starfsfólk þess svarar miklum fjölda fyrirspurna og safnið tekur virkan þátt í menningarlífi héraðsins.

 

Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður látinn

olafur-asgeirsson

Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést sunnudaginn 11. maí 2014. Ólafur fæddist 20. nóvember 1947, sonur Ásgeirs Ólafssonar er var forstjóri Brunabótafélagsins og konu hans Dagmarar Gunnarsdóttur, elstur fjögurra systkina.

Ólafur var cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1971, kenndi svo við Menntaskólann við Hamrahlíð og var skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá árinu 1977 um sjö ára skeið.

Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. desember 1984 og lét af því starfi 1. júní 2012 og er því sá maður sem lengst hefur gegnt því embætti. Í tíð hans sem þjóðskjalavarðar fluttist Þjóðskjalasafn Íslands úr Safnahúsinu í núverandi húsakynni sín að Laugavegi 162. Héraðsskjalasöfnum fjölgaði úr 13 í 20 á þessum tíma.  Ólafur sat í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og var heiðursfélagi þess.

Ólafur var kvæntur Vilhelmínu Elsu Johnsen og eignuðust þau þrjú börn.

Héraðsskjalaverðir þakka fyrir gott samstarf við Ólaf og góð kynni af honum og votta fjölskyldu hans samúð.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 23. maí nk. kl. 15:00.

Leyndarhyggja og óskýrleiki í stjórnsýslu við gerð, vörslu og aðgengi skjala gerir almenningi sem að réttu lagi ættu að vera frjálsir borgarar að þegnum stjórnsýslunnar, ekki ósvipað húsdýri á bási gagnvart bónda. Þessi heiðurskýr er með kennitölur í eyrunum.

Hér má sjá bréfið Stjórn Félags héraðsskjalavarða á Íslandi sendi innanríkisráðherra bréf 29. nóvember 2011 vegna þess að felld hafa verið úr lögum um sveitarstjórn mikilvæg ákvæði um færslu fundargerða.

Enn er beðið viðbragða ráðherra við því.

Mikilsvert er að fundargerðir séu rétt færðar og hafi fullt gildi, enda felast að jafnaði í þeim mikilvægustu ákvarðanir stjórnvalda hvort heldur hjá ríki eða sveitarfélögum. Héraðsskjalasöfnin eiga að sjá um aðgengi að þessum fundargerðum þegar þær hafa verið afhentar til vörslu þar, einnig ber þeim að hafa eftirlit með daglegri skjalavörslu sveitarfélaga sem að þeim standa. Sé gripið í tómt eða fundargerðirnar ekki fullnægjandi liggja héraðsskjalasöfnin undir þungu ámæli notenda sinna.

Héraðsskjalaverðir gerðu athugasemdir við þessar breytingar á sveitarstjórnarlögum þegar þau voru til umfjöllunar fyrir Alþingi en án þess að tillit væri tekið til þeirra. Sjá þær athugasemdir.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út ágætan fræðslubækling um fundarhöld og færslu fundargerða

Í fundarsköpum einstakra sveitarfélaga eru leiðbeiningar um færslu fundargerða, sjá t.d. hjá Akureyrarbæ (31. grein).

Þessar leiðbeiningar Sambands íslenskra sveitarfélaga og fundarsköp Akureyrarbæjar byggjast  á þeim sveitarstjórnarlögum sem nú eru fallin úr gildi.

Nú mun skv. fréttum komið í ljós að vantað hefur upp á færslu fundargerða lána- og fjárfestinganefnda hjá lífeyrissjóðum en úttektarnefnd Landssamtaka lífeyrissjóða mun hafa kallað eftir þeim.

Bætist þetta við gagnrýni sem birtist í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu þar sem áberandi virðist hafa verið víða að fundargerðir hafi ekki verið færðar, ekki færðar rétt eða kláraðar.

Menn virðast hafa staðið uppi með skjöl í formi draga og minnispunkta með óskýrt gildi og þýðingu, og óljóst hver ber ábyrgð á þeim ákvörðunum sem voru teknar, enda óljóst hvort þær voru teknar löglega þótt þeim hafi verið framfylgt þar sem menn töldu að þær hefðu verið teknar. Hver ber ábyrgðina þegar slíkt hefur hent? Voru þeir sem framfylgdu óljósum ákvörðunum að taka ákvarðanirnar sjálfir? Verða þeir dregnir til ábyrgðar?

Það gefur auga leið að eðlileg stjórnsýsla verður ekki rekin misferlis- og stóráfallalaust án þess að þetta sé í lagi. Að mikilvægustu ákvarðanir stjórnvalda geti orðið leynilegar eða óskýrar með þessum hætti býður heim ýmsum hættum m.a. að mönnum gefst tækifæri til þess að hlaupast undan ábyrgð þegar í óefni er komið.

Fundargerðir ríkisráðs eru leynilegar að lögum í ákveðinn tíma. Það er fordæmi sem hefur skaðleg áhrif á alla stjórnsýsluna í átt til leyndar. Að æðstu stjórnvöld geti þannig staðið skýringa- og ábyrgðarlaus á gjörningum sínum í áratugi er sérkennilegt. Kjarnaatriði í lýðræðisþjóðfélagi er að stjórnvöld standi reikningsskil á gjörðum sínum og standi ábyrg gjörða sinna og orða.

Það er bagalegt þegar krafa er uppi um að stjórnvöld taki sig saman í andlitinu til að koma á trausti og sýna raunverulegan vilja til þess að axla ábyrgð og reyni að bæta úr þeim trúnaðarbresti sem orðið hefur við almenning, að lagaskylda til að færa fundargerðir á háttbundinn og eðlilegan hátt er felld burt, og það í blóra við athugasemdir fagfólks. Síst var þörf á afturför í þessum efnum nú.

HS

Héraðsskjalasafn Kópavogs lokað vegna flutninga

Hillur að Hamraborg 1, 3 hæð eru nún tómar.

Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem lokunin kann að valda en í nýju húsnæði að Digranesvegi 7 verður öll aðstaða til afgreiðslu skjala og móttöku gesta mun betri en verið hefur.Frá og með föstudeginum 17. febrúar til miðvikudagsins 7. mars verður Héraðsskjalasafn Kópavogs lokað vegna flutninga.

Beri nauðsyn til má ná í héraðsskjalavörð í síma 6161522 meðan á lokuninni stendur.

Héraðsskjalavörður

Vísnavefur Héraðsskjalasafns Skagfirðinga

Um nokkurra ára skeið hefur Héraðsskjalasafn Skagfirðinga haldið úti vísnavef, þar sem skráðar hafa verið lausavísur eftir fjölmarga höfunda. Vísurnar koma úr stórum handritasöfnum, sem safnið varðveitir, einkum safni Sigurðar J. Gíslasonar kennara og skrifstofumanns á Akureyri og Sigurjóns Sigtryggssonar á Siglufirði.

Eins og notendum Vísnavefjar Héraðsskjalasafns Skagfirðinga er kunnugt hefur vefurinn legið niðri um tíma. Nú hefur Vísnavefurinn farið í samstarf við Bragagrunn Stofnunar Árna Magnússonar og opnar nú að nýju. Vísnagrunnarnir eru aðskyldir að öðru leyti en því að höfundaskráin er sú sama. Fleiri skjalasöfn munu bætast í hópinn á næstu misserum og þannig verður til öflugri og betri grunnur.

Á Vísnavefnum er hægt að leita að lausavísum og höfundum vísna, jafnframt er hægt að fræðast um vísnagerð og bragarhætti á vefnum. Slóðin er  www.bragi.arnastofnun.is.  Fjölmargir hafa nýtt sér þetta verkefni á undanförnum árum m.a. til rannsókna á þessum forna menningararfi íslendinga en áhugafólk um lausavísur getur líka notað grunninn sér til skemmtunar.

Hvetjum við notendur til að senda okkur línu með ábendingum eða upplýsingum um það sem betur má fara. Mikið er af villum í grunninum og er unnið að því að fækka þeim eins og nokkur kostur er. Jafnframt er afar mikilvægt að fá sem fyllstar upplýsingar um vísnahöfunda. Þegar þetta er ritað eru skráðir vísnahöfundar um 2300 og vísur um 30.000 talsins.

UI

Safnanótt á Borgarskjalasafninu 10. febrúar 2012

 

   
 
 Efri röð f.v. Kristberg Óskarsson, HYPNO. Neðri röð f.v. Árni Tryggvason, dömur úr fornu tískublaði og Snorri Helgason.

Safnanótt verður haldin á höfuðborgarsvæðinu föstudagskvöldið 10. febrúar 2012.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur verður með opið hús frá kl. 19:00 til 23:59 og fjölbreytta  dagskrá eins og hin fyrri ár við þetta tækifæri. Sýnd verða skjöl tengd upphafi raflýsingar í Reykjavík og starfsmenn fræða gesti um safnið og svara spurningum. Sýnd verður kvikmyndin Miðbær Reykjavíkur – Aldaspegill íslenskrar samtíðar sem fjallar um sögu Reykjavíkur undanfarna öld. Lestrarsalnum verður umbreytt í hárgreiðslustofu þar sem haldin verða námskeið í að flétta hár, hnýta hár og hnoða það í pulsur á vegum Hársnyrtistofunnar Salahárs. Árni Tryggvason leikari og fyrrverandi starfsmaður Borgarskjalasafnsins les upp nokkrar draugasögur. Tónlistarmennirnir Snorri Helgason og Hypno flytja tónlist sína. Kostur gefst á því að blaða í gömlum tísku- og vikublöðum og hið vinsæla barnarhorn Borgarskjalasafnsins verður á sínum stað.

Borgarskjalasafn Reykjavíkur er í Grófarhúsi að Tryggvagötu 15, 3. hæð. Vefsíða þess er www.borgarskjalasafn.is

Annað skjalasafn á höfuðborgarsvæðinu, Þjóðskjalasafn Íslands, verður með opið hús 19:00-24:00, fyrirlestra, tengdar sýningar og ættfræðihorn.

Héraðsskjalasafn Kópavogs er nú statt á milli húsa ef svo má segja, í miðjum flutningum og getur ekki tekið þátt í safnanóttinni að þessu sinni, en bætir úr því að ári. Í Kópavogi taka Bókasafnið, Tónminjasafnið, Listasafnið og Náttúrufræðistofan öll þátt í Safnanóttinni að þessu sinni.

Dagskrá Borgarskjalasafns á Safnanótt 2012

19:00-23.59 Opið hús í Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, 3. hæð.
19:00-23.59
Sýning á skjölum tengdum ljósum og lýsingu í borginni.
19:00-23.59  Blaðað í sögunni. Fólki gefst kostur á að setjast niður og blaða í 40-50 ára gömlum vikublöðum og tískublöðum og skoða úrklippur um skemmtanalíf Reykvíkinga.
19.00-20.00
Kvikmyndin Miðbær Reykjavíkur – Aldaspegill íslenskrar samtíðar. Saga Reykjavíkur rakin síðustu 100 árin og sýnt hvernig miðbærinn hefur verið vettvangur allra helstu umbreytinga á þessum tíma. Meðal annars bruninn miklu 1915, uppbygging og helstu straumar í skemmtanalífi. Framleiðandi Kvikmyndafélag Íslands undir stjórn Júlíusar Kemp.
19:30-20:30
Fléttunámskeið – Hársnyrtistofan Salahár leiðbeinir um að flétta hár. Síðhært fólk á öllum aldri er sérstaklega boðið velkomið.
20.00-21.00
Stuttmyndin Listaverk eftir Kristberg Óskarsson. Leikari í myndinni er Kristberg Óskarsson og sýnir hún listmálara að mála mynd við Miklubraut.
20:30-21:30
Kennsla í hnútum og pulsum – Hársnyrtistofan Salahár leiðbeinir um að gera hnúta og pulsur í hár. Síðhært fólk á öllum aldri er sérstaklega boðið velkomið.
21:30-22:00
Magnaðar sögur í rökkrinu. Árni Tryggvason, leikarinn góðkunni les upp nokkrar magnaðar sögur eins og honum einum er lagið.
22:00 Snorri Helgason, tónlistarmaður leikur og syngur.
23:00 HYPNO þeytir skífum með ljúfri house, electro og techno tónlist.
23:59  Húsið lokar