Nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga

safnahusmyndir09_skagafj

Sólborg Una Pálsdóttir tók til starfa sem nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga nú í ágúst.  Hún er sagnfræðingur frá Háskóla Ísland. Árið 2003 útskrifaðist hún með MSc. gráðu í upplýsingatækni í fornleifafræði (Archaeological information System) frá Háskólanum í York og hefur einnig sótt fjölmörg námskeið um upplýsingakerfi, uppbyggingu gagnagrunna o.fl

Síðustu ár hefur Sólborg starfað hjá Minjastofnun (áður Fornleifavernd) við stöðlun, skráningu og miðlun upplýsinga um fornleifar á Íslandi. Þá hefur hún reynslu að skráningu muna og fornleifa í gangagrunna og hefur haldið fjölda fyrirlestra og ritað greinar um sagnfræðileg og fornleifafræðileg efni.

Sólborg er boðin velkomin til starfa og Unnari Ingvarssyni, sem hefur snúið sér að öðru eftir 14 ára farsælt starf sem héraðsskjalavörður Skagfirðinga, er þakkað ánægjulegt og gefandi samstarf.

 

Ný lög um opinber skjalasöfn

lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hafa verið sett nú í maí og leysa af hólmi lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og að nokkru upplýsingalög nr. 50/1996, en með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012 var tekin sú ákvörðun að danskri fyrirmynd að skipta löggjöf um upplýsingarétt á milli upplýsingalaga og laga um opinberar skjalavörslustofnanir. Hefur því verið haldið fram að með þessu myndist “heildstæðari rammi um upplýsingarétt almennings” sem vekur undrun því tvenn lög eru tæplega heildstæðari en ein.

Hin nýju lög um opinber skjalasöfn hafa í för með sér ýmsar breytingar er varða skjalavörslu sveitarfélaga og stöðu héraðsskjalasafna.

Í nýju lögunum er beinlínis kveðið á um að héraðsskjalasafn sé sjálfstætt opinbert skjalasafn og að það skuli hafa eftirlit með með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir þangað um skjöl sín. Skv. hinum eldri lögum nr. 66/1985 var sjálfstæði héraðsskjalasafna aðeins á grundvelli reglugerðar og eftirlitshlutverkið framselt héraðsskjalasöfnum af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérstaða þeirra og sjálfstæði að lögum hefur því aukist frá því sem áður var.

Umdeilt er hvort afhendingarskylda til héraðsskjalasafna hefur aukist eða minnkað við þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað með upplýsingalögum nr. 140/2012 og þessum nýju lögum, vegna ágreinings um túlkun hinna fyrri laga nr. 66/1985. Skýrari viðmið um eignarhald skilgreina nú afhendingarskylduna.

Sérstakar refsiheimildir eru komnar í lögin er varða þagnarskyldu og vanrækslu á vörslu skjala en áður varð aðeins byggt á almennum hegningarlögum hvað varðaði tjón á eigum hins opinbera þegar skjöl voru annars vegar.

Ákvörðunarvald um eyðingu opinberra skjala er nú aðeins í höndum þjóðskjalavarðar en var áður í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands og þar áður háð samþykki landsstjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer ekki lengur með yfirstjórn Þjóðskjalasafnsins og er nú þjóðskjalaverði aðeins til ráðgjafar.

Staða Þjóðskjalasafns Íslands og skjalavörsluskyldu hefur veikst að því leyti að Alþingi og umboðsmaður Alþingis lúta nú ekki lengur lögum um opinbera skjalavörslu og skjalavarsla þeirra er ekki bundin neinni löggjöf. Skjalavarsla löggjafarsamkomunnar er því laus undan lögum. T.d. kemur ekki skýrt fram í lagatextanum hvort ríkisendurskoðun, sem er ein stofnana Alþingis eigi að lúta þessari löggjöf.

Lögin hafa að geyma meiri texta en fyrri löggjöf. Þau eiga sér nokkurn aðdraganda, en heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands hófst með því að menntamálaráðherra skipaði starfshóp um hana 24. september 2008 og drög laganna voru sett í almennt umsagnarferli í desember 2010, þá fyrst höfðu héraðsskjalaverðir tækifæri til að koma faglegum sjónarmiðum sínum að. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um ýmsa þætti laganna sem snerta fagleg efni, almannahag og upplýsingaöryggi eins og hefur komið fram áður á þessum vef. Sumt í hinum nýju lögum er óneitanlega til bóta, en ljóst er að betur hefði mátt standa að undirbúningi lagasetningarinnar með samstarfi við héraðsskjalasöfnin þegar í upphafi. Lögin eru ekki gallalaus, en eftir þeim starfa opinber skjalasöfn nú.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2014

Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.

Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.

Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Ljósmyndavefur Austfirðinga

Í maílok 2014 hleypti Héraðsskjalasafn Austfirðinga af stokkunum ljósmyndavef á þessari slóð myndir.heraust.is.

Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins. Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

Staða héraðsskjalavarðar Skagafjarðar laus til umsóknar

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir laust til umsóknar starf héraðsskjalavarðar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Héraðsskjalavörður er forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Hann leiðir starfsemi safnsins og sér um fjárhagslegan rekstur þess.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í sagnfræði eða skyldum greinum.
  • Gerð er krafa um mjög góða almenna tölvukunnáttu og æskilegt að viðkomandi hafi þekkingu á notkun tölvuforrita, s.s. Navision, OneSystems, Fotostation, Photoshop og Office.
  • Umsækjandi þarf að hafa góð tök á íslensku máli í ræðu og riti og hafa ríka samskiptahæfileika.
  • Æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu og reynslu í rekstri opinberra stofnana.
  • Þekking og áhugi á skagfirskri sögu er kostur.

Um 100% starf er að ræða.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum BHM við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 15. júní 2014.

Umsóknum sem greina frá menntun og fyrri störfum skal skila í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is (störf í boði) eða í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður, unnar@skagafjordur.is , eða í síma 892-6640 og Hrefna G. Björnsdóttir, mannauðsstjóri,  hrefnag@skagafjordur.is eða í síma 455-6065.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er elsta héraðsskjalasafn landsins, stofnað árið 1947. Safnið varðveitir stærsta safn einkaskjala utan Reykjavíkur auk mikils magns opinberra heimilda og ljósmynda. Fjölmargir gestir sækja safnið heim árlega. Starfsfólk þess svarar miklum fjölda fyrirspurna og safnið tekur virkan þátt í menningarlífi héraðsins.

 

Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður látinn

olafur-asgeirsson

Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést sunnudaginn 11. maí 2014. Ólafur fæddist 20. nóvember 1947, sonur Ásgeirs Ólafssonar er var forstjóri Brunabótafélagsins og konu hans Dagmarar Gunnarsdóttur, elstur fjögurra systkina.

Ólafur var cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1971, kenndi svo við Menntaskólann við Hamrahlíð og var skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá árinu 1977 um sjö ára skeið.

Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. desember 1984 og lét af því starfi 1. júní 2012 og er því sá maður sem lengst hefur gegnt því embætti. Í tíð hans sem þjóðskjalavarðar fluttist Þjóðskjalasafn Íslands úr Safnahúsinu í núverandi húsakynni sín að Laugavegi 162. Héraðsskjalasöfnum fjölgaði úr 13 í 20 á þessum tíma.  Ólafur sat í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og var heiðursfélagi þess.

Ólafur var kvæntur Vilhelmínu Elsu Johnsen og eignuðust þau þrjú börn.

Héraðsskjalaverðir þakka fyrir gott samstarf við Ólaf og góð kynni af honum og votta fjölskyldu hans samúð.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 23. maí nk. kl. 15:00.

Kostnaður við langtímavörslu stafrænna gagna fer úr böndunum

Kostnaður við gerð stafræns kerfis til söfnunar, varðveislu og aðgengis almennings að skjölum alríkisstjórnarinnar  í Bandaríkjunum hefur skv. frétt Washington Post 6. febrúar sl. blásið út og náð 1,4 milljörðum dollara og talið er að verkefnið geti farið 41% fram úr fjárhagsáætlun.

Ábyrgðareftirlit ríkisstjórnarinnar (Government Accountability Office) sem starfar á vegum Bandaríkjaþings við eftirlit og mat á áætlunum og gjörðum stjórnvalda hefur gagnrýnt Þjóðskjalasafn Bandaríkjanna fyrir þetta.

Málið vekur „efasemdir um hvort alríkisstjórnin hafi skilvirka áætlun til að viðhalda og gera aðgengilegt  almenningi það geypilega magn rafrænna gagna“ sem mynduð hafa verið af stjórnvöldum skv. öldungadeildarþingmanninum Thomas R. Carper. Hann lýsti vonbrigðum yfir því að vandamál „sem hefðu blasað við um nokkurn tíma lægju óbætt hjá garði.“

Skýrsla Ábyrgðareftirlits Bandaríkjastjórnar um málið

Það er gömul saga og ný að ef menn hugsa ekki fyrir langtímavarðveislu um leið og þeir búa til skjöl eða gögn verður langtímavarðveisla að ill- eða óleysanlegu vandamáli.

Þegar erfitt og kostnaðarsamt var að mynda skjöl var farið varlega með verðmætt og gott efni, ritað var af vandvirkni og fjallað var um mikilsverð efni að mati þeirra er rituðu. Þau skjöl báru í sjálfum sér varanleika sem þekkist vart nú á tímum.

Með stafrænni tækni er auðvelt að mynda gögn hratt um hvað eina. Oft er það gert í skyndi og af hroðvirkni. Jafnframt er auðvelt að birta stafræn gögn opinberlega strax. Gríðarlegt magn myndast, gögnin hverfa í fjöldann og  bera í sér flýti og hverfulleika. Þetta skapar ný vandamál, einkum fyrir þá sem eiga að gæta að stöðugleika, öryggi og áreiðanleika gagnanna þannig að fært sé að halda þeim aðgengilegum til langframa. Spurningar vakna einnig um gildi varðveislunnar miðað við kostnaðinn.

Það kemur æ betur í ljós að nýting á stafrænu formi hefur verið meira af kappi en forsjá.

Hér á vefnum eru tenglar til heimasíðna er snúast um rafræn gögn og langtímavarðveislu þeirra: Stafræn gögn og vélvædd gagnavarsla.

Skjalfræðinám við Háskóla Íslands eflt

Fagnaðarefni er að kennsla í skjalfræði sem aukagrein í sagnfræði hefst nú í haust við Háskóla Íslands.

Erlendis er slík menntun oft veitt í háskólum á þennan hátt en í fjölmennum löndum þar sem sérstaklega er vandað til eru sérstakir skólar ætlaðir skjalavörðum. Sjá hér á vefnum.

Ákveðin grunnmenntun um skjöl og skjalavörslu er órofa þáttur í þjálfun embættismanna og opinberra starfsmanna víða um heim. Með því er ákveðin formfesta í embættisfærslu tryggð. Háværar kröfur eru nú uppi um það hér á landi eftir efnahagshrunið sem beint hefur sjónum margra að brotalömum í stjórnsýslu landsins. Nauðsynlegt er að grunnatriði skjalavörslu og umgengni við skjöl sé þáttur í þjálfun allra opinberra starfsmanna á Íslandi.

Efling skjalfræðináms við Háskóla Íslands er skref í átt að umbótum í þá veru.

Árið 1985 var í fyrsta sinn kennt námskeið í sagnfræði við Háskóla Íslands undir heitinuSkjalasöfn og skjalavarsla. Námskeiðið var kennt í stundakennslu nokkurn veginn annað hvert ár til ársins 2005. Þá var gerður samningur milli Þjóðskjalasafns Íslands og Háskóla Íslands um fasta hálfa stöðu lektors í skjalfræði við sagnfræðiskor. Kristjana Kristinsdóttir hefur gegnt þeirri stöðu frá upphafi.

Í lok árs 2010 var samþykkt af hugvísindasviði Háskóla Íslands að gera kennsluna í skjalfræði að aukagrein í sagnfræði og hefst kennsla í aukagreininni á kennsluárinu 2011 til 2012.

Námsleiðin er ætluð nemendum sem hafa hug á því að starfa á skjalasöfnum, hvort heldur sem skjalavörður á skjalasafni, við stofnun eða fyrirtæki.

Námið nær til sígildra aðferða við skjalavörslu. Skoðaður er ferill skjals frá því það er myndað þar til daglegt gildi þess hefur vikið fyrir hinu sögulega, fjallað um gamlar og nýjar skjalavörsluaðferðir, frágang skjala í geymslu og gerð skjalaskrár, auk skjalalestrar og stjórnsýslusögu. Fjallað er um nýjar áherslur og viðhorf í skjalfræðum m.a. um notkun og varðveislu rafrænna skjala, og lögð áhersla á heimildargildi skjala og notkun þeirra.

Aukagreinin er einkum ætluð sagnfræðinemum, enda er góð undirstaða í þeirri grein forsenda fyrir  námi í skjalfræði og starfi á þeim vettvangi. Forkröfur eru 20 einingar í sagnfræði, það er Sagnfræðileg vinnubrögð og annað tveggja kjarnanámskeiða í Íslandssögu.

Ekkert er því til fyrirstöðu að nemendur með aðra aðalgrein en sagnfræði taki skjalfræði sem aukagrein og eru forkröfur þær sömu og hjá sagnfræðinemum. Til greina kemur að önnur námskeið verði metin sem ígildi forkröfunámskeiða í sagnfræði og þarf að sækja um það til námsbrautar í sagnfræði.

Námið er 60 einingar og námsframboð miðar við að hægt sé að ljúka því á tveimur árum.

Skyldunámskeiðin  eru samanlagt 40 einingar og samanstanda nú af eftirtöldum námskeiðum:
Skjalasöfn og skjalavarsla
Skjalavarsla á 20. og 21. öld
Skjalalestur 1550-1850
Stjórnsýsla á fyrri öldum
Vettvangsvinna á Þjóðskjalasafni
Hagnýtt verkefni

Sjá nánar um nokkur þeirra hér á vefnum.

Að öðru leyti eru námskeið valfrjáls, hvort sem það eru sérhæfð námskeið í sagnfræði eða námskeið í öðrum greinum sem tengjast skjalavörslu og stjórnsýslu á einhvern hátt. Ár hvert verður birtur listi yfir þau námskeið sem mælt er með og sem kennd eru hverju sinni.

Drög að lögum um Þjóðskjalasafn mæta óánægju héraðsskjalavarða

Héraðsskjalaverðir hafa í umsögnum brugðist við drögum að frumvarpi til laga um Þjóðskjalasafn Íslands sem unnið hefur verið að af starfshópi er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra skipaði 24. september 2008 til að vinna að heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands. Í starfshópnum sátu dr. jur. Páll Hreinsson hæstaréttardómari, formaður, Ólafur Ásgeirsson þjóðskjalavörður og Eiríkur Þorláksson sérfræðingur í menntamálaráðuneytinu. Jafnframt var lögfræðisvið ráðuneytisins hópnum til aðstoðar.

Að öllu samanlögðu eru héraðsskjalaverðir andvígir fyrirhuguðum lagabreytingum eins og þær liggja fyrir, en um drög er að ræða sem geta tekið breytingum áður en þau verða lögð fyrir Alþingi.

Drög að frumvarpi til laga um Þjóðskjalasafn Íslands á heimasíðu menntamálaráðuneytisins

Sameiginlegar athugasemdir allra héraðsskjalavarða hafa birst á þessum vef áður:Sjá hér.

Í athugasemdunum er áhersla lögð á að lögin séu sett um öll skjalasöfnin þ.e. héraðsskjalasöfn til jafns við Þjóðskjalasafn, sjálfstæði sveitarfélaga verði virt og skjalavörsluábyrgð forstöðumanna skýr. Í drögunum er ekki fjallað markvisst um héraðsskjalasöfnin, stjórnsýslulega stöðu þeirra og hlutverk. Gagnrýnt er að stjórnarnefnd Þjóðskjalasafnsins, fjölskipað stjórnvald, sé afnumin og allt vald í skjalavörslu í landinu lagt í hendur eins manns, þjóðskjalavarðar. Lagt er til að stofnað verði sérstakt skjalaráð. Bent er á að stór hluti skjalavörslu á Íslandi fari fram á vegum héraðsskjalasafna. Gagnrýnt er hversu langt er gengið í eftirlitsheimildum Þjóðskjalasafns með héraðsskjalasöfnum þær séu án hliðstæðu um stofnanir sveitarfélaga gagnvart ríkisstofnun. Niðurstaða athugasemdanna er að drögin þurfi verulegrar endurskoðunar við.

Sérstakar umsagnir til viðbótar hafa verið sendar menntamálaráðuneytinu af fjórum héraðsskjalavörðum. Þær umsagnir eru í sama anda og sameiginlegu athugasemdirnar, en ítarlegri.

Umsögn héraðsskjalavarðar Austfirðinga

Umsögn borgarskjalavarðar

Sameiginleg umsögn héraðsskjalavarðar Árnesinga og héraðsskjalavarðar Kópavogs

Áður hafa komið fram drög að frumvarpi til upplýsingalaga frá forsætisráðuneyti, en í þeim eru einnig tillögur að breytingum á lögum um Þjóðskjalasafn.
Drög að frumvarpi til upplýsingalaga á heimasíðu forsætisráðuneytisins

Borgarskjalavörður, héraðsskjalavörður Árnesinga og héraðsskjalavörður Kópavogs hafa gert sameiginlega umsögn um þau drög:
Umsögn um drög að frumvarpi til upplýsingalaga

Frumvarpið hefur verið lagt fyrir Alþingi, en athugasemdirnar virðast ekki hafa haft tilætluð áhrif:
Frumvarp til upplýsingalaga lagt fyrir Alþingi

 Opinberun skjala, varðveisla þeirra og not eru í deiglunni. Menn tefla saman sem andstæðum Julian Assance fyrir Wikileaks sem tekur upplýsingar um stjórnvöld og birtir almenningi og Mark Zuckerberg fyrir Facebook sem tekur upplýsingar um almenning og birtir stjórnvöldum. Í tengslum við Alþingi vekja athygli fréttir af eyðingu skjala í formi upptakna úr öryggismyndavélum meðan úrval þeirra er varðveitt og notað, einnig fréttir af tölvubúnaði sem virðist hafa verið notaður til að njósna um bréfaskipti Alþingis.

Upp úr þessu sprettur áhugaverð umræða um ýmis vandamál tengd upplýstu samþykki, borgaralegum réttindum, réttinum til skjala, ábyrgð stjórnvalda, heild skjalasafna, öryggi skjala o.fl.

Opinber skjalasöfn, eftirlitshlutverk þeirra með skjalavörslu stjórnvalda og lög og reglur um aðgengi að opinberum skjölum í þeirra vörslu og undir þeirra eftirliti tengjast þessari umræðu óhjákvæmilega.

Hlutverk skjalavarða, fagmennska þeirra og siðferði er mikilvægur þáttur í því að framfylgja raunverulegu gagnsæi í opnu samfélagi en um leið að gæta að persónuhagsmunum borgaranna þ.e. réttinum til einkalífs og sameiginlegum öryggishagsmunum þeirra þ.e. ríkis og þjóðar. Hætta er á því að þessir þjónar hins opinbera verði notaðir til hins gagnstæða sé löggjöf um störf þeirra áfátt af einhverjum ástæðum. Það er því ekki að ástæðulausu að skjalaverðir hafi skoðun á löggjöf um það fagsvið sem þeir starfa á. Enginn vill verða verkfæri ranglætis eða neyðast til að hylma yfir óhæfu.

Skjöl hafa innihald, þýðingu, áhrif og samhengi. Skjalavörðum í þjónustu hins opinbera er ætlað að hafa þekkingu og skilning á þessu og tryggja aðgengi að skjölum og framfylgja aðgengistakmörkunum á þeim.

Á seinni árum hafa menn úr viðskiptalífi beint sjónum sínum að upplýsingum sem verðmætum og vöru. Sú nálgun hefur í för með sér hugmyndir um viðskiptaeinokun á upplýsingum til að hagnast á þeim á sem skilvirkastan hátt. Hugmyndir um sértekjur opinberra stofnana af sölu skjala og upplýsinga hafa vaknað og mismunun aðila við  aðgengi og not þeirra. Hugmyndin um skjöl stjórnvalda sem auðlind með viðskiptaábata að markmiði vekur áleitnar siðferðisspurningar.

Íslenska efnahagshrunið vekur upp margar spurningar um stjórnsýslu, skjalavörslu og meðferð opinberra skjala. Skjalavörslusamband Rómönsku Ameríku (Asociación Latinoamericana de Archivos (ALA)) gaf út rit árið 2006 sem unnið var að í Þjóðskjalasafni Kólumbíu: Archivos desorganizados, fuente de currupción administrativaeða Skjalasöfn í óreiðu, upphaf spillingar í stjórnsýslu. Í riti þessu er fjallað um hvernig skipulagsleysi skjalasafna helst í hendur við spillingu í opinberri stjórnsýslu. M.a. er þar fjallað um málefni er tengjast einkavæðingu Colpuertos sem hafði verulegar efnahagslegar afleiðingar fyrir Kólumbíska ríkið.

Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis hefur leitt í ljós ágalla á skjalavörslu hins opinbera. Opinberar skjalavörslustofnanir sem fara með eftirlitshlutverk með skjalavörslu opinberra stofnana á Íslandi skv. gildandi lögum (4. gr. 2. tl. laga nr. 66/1985) hafa ekki skilað lögbundnu hlutverki sínu að því leyti. Þó er ekki á það minnst í skýrslunni.

Bæði upplýsingalög og lög um opinber skjalasöfn varða alla upplýsta borgara Íslands og því þykir rétt að koma athugasemdum héraðsskjalavarða við drög að þessum lögum á framfæri á þessum vettvangi.

Staða Þjóðskjalasafns Brasilíu rýrð

Eftir kosningar í desember í Brasilíu hefur verið tilkynnt opinberlega að Þjóðskjalasafn Brasilíu Arquivo Nacional verði flutt undan forsetaembættinu, þar sem það hefur verið frá árinu 2000 og undir dómsmálaráðuneytið þ.e. því verður hnikað niður á við og til hliðar. Það er talið veikja sjálfstæði þess og vægi í stjórnsýslunni. Skjalaverðir í Brasilíu eru undrandi á þessu og í uppnámi.

Félag brasilískra skjalavarða Associação dos Arquivistas Brasileiros hefur óskað eftir því við þarlend stjórnvöld að Þjóðskjalasafninu verði haldið varanlega undir forræði forsetaembættisins. Undirskriftarlisti í formi opinberrar bænaskrár hefur verið settur í umferð.

Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess hvernig málum er háttað á Íslandi, en hér á landi er Þjóðskjalasafni Íslands skipað undir mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Yfirlýsing Félags Brasilískra skjalavarða um málið (á portúgölsku)