Nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga

safnahusmyndir09_skagafj

Sólborg Una Pálsdóttir tók til starfa sem nýr héraðsskjalavörður Skagfirðinga nú í ágúst.  Hún er sagnfræðingur frá Háskóla Ísland. Árið 2003 útskrifaðist hún með MSc. gráðu í upplýsingatækni í fornleifafræði (Archaeological information System) frá Háskólanum í York og hefur einnig sótt fjölmörg námskeið um upplýsingakerfi, uppbyggingu gagnagrunna o.fl

Síðustu ár hefur Sólborg starfað hjá Minjastofnun (áður Fornleifavernd) við stöðlun, skráningu og miðlun upplýsinga um fornleifar á Íslandi. Þá hefur hún reynslu að skráningu muna og fornleifa í gangagrunna og hefur haldið fjölda fyrirlestra og ritað greinar um sagnfræðileg og fornleifafræðileg efni.

Sólborg er boðin velkomin til starfa og Unnari Ingvarssyni, sem hefur snúið sér að öðru eftir 14 ára farsælt starf sem héraðsskjalavörður Skagfirðinga, er þakkað ánægjulegt og gefandi samstarf.

 

Ný lög um opinber skjalasöfn

lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hafa verið sett nú í maí og leysa af hólmi lög nr. 66/1985 um Þjóðskjalasafn Íslands og að nokkru upplýsingalög nr. 50/1996, en með nýjum upplýsingalögum nr. 140/2012 var tekin sú ákvörðun að danskri fyrirmynd að skipta löggjöf um upplýsingarétt á milli upplýsingalaga og laga um opinberar skjalavörslustofnanir. Hefur því verið haldið fram að með þessu myndist “heildstæðari rammi um upplýsingarétt almennings” sem vekur undrun því tvenn lög eru tæplega heildstæðari en ein.

Hin nýju lög um opinber skjalasöfn hafa í för með sér ýmsar breytingar er varða skjalavörslu sveitarfélaga og stöðu héraðsskjalasafna.

Í nýju lögunum er beinlínis kveðið á um að héraðsskjalasafn sé sjálfstætt opinbert skjalasafn og að það skuli hafa eftirlit með með skjalavörslu þeirra aðila sem eru afhendingarskyldir þangað um skjöl sín. Skv. hinum eldri lögum nr. 66/1985 var sjálfstæði héraðsskjalasafna aðeins á grundvelli reglugerðar og eftirlitshlutverkið framselt héraðsskjalasöfnum af Þjóðskjalasafni Íslands. Sérstaða þeirra og sjálfstæði að lögum hefur því aukist frá því sem áður var.

Umdeilt er hvort afhendingarskylda til héraðsskjalasafna hefur aukist eða minnkað við þær lagabreytingar sem hafa átt sér stað með upplýsingalögum nr. 140/2012 og þessum nýju lögum, vegna ágreinings um túlkun hinna fyrri laga nr. 66/1985. Skýrari viðmið um eignarhald skilgreina nú afhendingarskylduna.

Sérstakar refsiheimildir eru komnar í lögin er varða þagnarskyldu og vanrækslu á vörslu skjala en áður varð aðeins byggt á almennum hegningarlögum hvað varðaði tjón á eigum hins opinbera þegar skjöl voru annars vegar.

Ákvörðunarvald um eyðingu opinberra skjala er nú aðeins í höndum þjóðskjalavarðar en var áður í höndum fjölskipaðs stjórnvalds, stjórnarnefndar Þjóðskjalasafns Íslands og þar áður háð samþykki landsstjórnarinnar. Stjórnarnefndin fer ekki lengur með yfirstjórn Þjóðskjalasafnsins og er nú þjóðskjalaverði aðeins til ráðgjafar.

Staða Þjóðskjalasafns Íslands og skjalavörsluskyldu hefur veikst að því leyti að Alþingi og umboðsmaður Alþingis lúta nú ekki lengur lögum um opinbera skjalavörslu og skjalavarsla þeirra er ekki bundin neinni löggjöf. Skjalavarsla löggjafarsamkomunnar er því laus undan lögum. T.d. kemur ekki skýrt fram í lagatextanum hvort ríkisendurskoðun, sem er ein stofnana Alþingis eigi að lúta þessari löggjöf.

Lögin hafa að geyma meiri texta en fyrri löggjöf. Þau eiga sér nokkurn aðdraganda, en heildarendurskoðun laga um Þjóðskjalasafn Íslands hófst með því að menntamálaráðherra skipaði starfshóp um hana 24. september 2008 og drög laganna voru sett í almennt umsagnarferli í desember 2010, þá fyrst höfðu héraðsskjalaverðir tækifæri til að koma faglegum sjónarmiðum sínum að. Djúpstæður ágreiningur hefur verið um ýmsa þætti laganna sem snerta fagleg efni, almannahag og upplýsingaöryggi eins og hefur komið fram áður á þessum vef. Sumt í hinum nýju lögum er óneitanlega til bóta, en ljóst er að betur hefði mátt standa að undirbúningi lagasetningarinnar með samstarfi við héraðsskjalasöfnin þegar í upphafi. Lögin eru ekki gallalaus, en eftir þeim starfa opinber skjalasöfn nú.

Alþjóðlegi skjaladagurinn 2014

Mánudaginn 9. júní er Alþjóðlegi skjaladagurinn sem skjalasöfn um allan heim taka þátt í með einum eða öðrum hætti. Á þessum degi er vakin athygli á mikilvægi starfs skjalasafna og mikilvægi þess að skjöl varðveitist með tryggilegum hætti. Á Íslandi taka héraðsskjalasöfn landsins þátt í deginum að vanda. Daginn ber upp á annan í hvítasunnu að þessu sinni og mun því Félag héraðsskjalavarða á Íslandi standa fyrir málþingi fyrir starfmenn héraðsskjalasafna miðvikudaginn 11. júní. Gagnger endurskoðun á vefsíðu félagsins stendur yfir þessa dagana og er stefnt að því að henni ljúki hið fyrsta.

Um Alþjóðlega skjaladaginn á vef Alþjóða skjalaráðsins.

Vefur Alþjóðlega skjaladagsins 2014.

Héraðsskjalasöfnin eru tuttugu talsins um land allt. Meginhlutverk þeirra er að safna, varðveita og afgreiða úr skjölum bæjar- og sveitastjórna, stofnana þeirra og fyrirtækja. Jafnframt taka þau til varðveislu skjöl einstaklinga, félaga og fyrirtækja á safnasvæðinu. Héraðsskjalasöfnin varðveita því söguna heima í héraði og gegna margvíslegu menningarlegu og stjórnsýslulegu hlutverki sem skilgreint er í lögum.

Ljósmyndavefur Austfirðinga

Í maílok 2014 hleypti Héraðsskjalasafn Austfirðinga af stokkunum ljósmyndavef á þessari slóð myndir.heraust.is.

Á vefnum eru um 55 þúsund myndir í eigu Ljósmyndasafns Austurlands, sem er sérstök deild innan Héraðsskjalasafnsins. Þar er hægt að skoða fjölbreytt myndasöfn allt frá mannamyndum teknum fyrir aldamótin 1900 til frétta- og íþróttamynda frá síðari helmingi 20. aldar.

Vefurinn er afrakstur sérstaks átaksverkefnis um skönnun og skráningu ljósmynda sem hefur staðið yfir frá árinu 2011 með sérstökum styrk frá ríkissjóði, Fljótsdalshéraði, Fljótsdalshreppi og fleiri aðilum.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Héraðsskjalasafn Árnesinga og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga.

Heildarfjöldi mynda hjá Ljósmyndasafni Austurlands er um 80 þúsund og sífellt bætist við safnið. Myndum á ljósmyndavefnum á því eftir að fjölga enn frekar eftir því sem fjármagn fæst í verkefnið.

Staða héraðsskjalavarðar Skagafjarðar laus til umsóknar

Sveitarfélagið Skagafjörður auglýsir laust til umsóknar starf héraðsskjalavarðar á Héraðsskjalasafni Skagfirðinga

Héraðsskjalavörður er forstöðumaður Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Hann leiðir starfsemi safnsins og sér um fjárhagslegan rekstur þess.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun í sagnfræði eða skyldum greinum.
  • Gerð er krafa um mjög góða almenna tölvukunnáttu og æskilegt að viðkomandi hafi þekkingu á notkun tölvuforrita, s.s. Navision, OneSystems, Fotostation, Photoshop og Office.
  • Umsækjandi þarf að hafa góð tök á íslensku máli í ræðu og riti og hafa ríka samskiptahæfileika.
  • Æskilegt er að umsækjandi hafi þekkingu og reynslu í rekstri opinberra stofnana.
  • Þekking og áhugi á skagfirskri sögu er kostur.

Um 100% starf er að ræða.

Laun og starfskjör eru samkvæmt kjarasamningum BHM við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 15. júní 2014.

Umsóknum sem greina frá menntun og fyrri störfum skal skila í gegnum heimasíðu sveitarfélagsins www.skagafjordur.is (störf í boði) eða í gegnum íbúagátt sveitarfélagsins. Öllum umsóknum verður svarað og umsækjendum tilkynnt um ráðstöfun starfsins þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Unnar Ingvarsson héraðsskjalavörður, unnar@skagafjordur.is , eða í síma 892-6640 og Hrefna G. Björnsdóttir, mannauðsstjóri,  hrefnag@skagafjordur.is eða í síma 455-6065.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga er elsta héraðsskjalasafn landsins, stofnað árið 1947. Safnið varðveitir stærsta safn einkaskjala utan Reykjavíkur auk mikils magns opinberra heimilda og ljósmynda. Fjölmargir gestir sækja safnið heim árlega. Starfsfólk þess svarar miklum fjölda fyrirspurna og safnið tekur virkan þátt í menningarlífi héraðsins.

 

Ólafur Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður látinn

olafur-asgeirsson

Ólafur S. Ásgeirsson fyrrverandi þjóðskjalavörður lést sunnudaginn 11. maí 2014. Ólafur fæddist 20. nóvember 1947, sonur Ásgeirs Ólafssonar er var forstjóri Brunabótafélagsins og konu hans Dagmarar Gunnarsdóttur, elstur fjögurra systkina.

Ólafur var cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1971, kenndi svo við Menntaskólann við Hamrahlíð og var skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi frá árinu 1977 um sjö ára skeið.

Hann var skipaður þjóðskjalavörður frá 1. desember 1984 og lét af því starfi 1. júní 2012 og er því sá maður sem lengst hefur gegnt því embætti. Í tíð hans sem þjóðskjalavarðar fluttist Þjóðskjalasafn Íslands úr Safnahúsinu í núverandi húsakynni sín að Laugavegi 162. Héraðsskjalasöfnum fjölgaði úr 13 í 20 á þessum tíma.  Ólafur sat í ýmsum nefndum á vegum Alþjóða skjalaráðsins (ICA) og var heiðursfélagi þess.

Ólafur var kvæntur Vilhelmínu Elsu Johnsen og eignuðust þau þrjú börn.

Héraðsskjalaverðir þakka fyrir gott samstarf við Ólaf og góð kynni af honum og votta fjölskyldu hans samúð.

Útför Ólafs verður gerð frá Hallgrímskirkju föstudaginn 23. maí nk. kl. 15:00.

Orkuveita Reykjavíkur afhendir skjöl

Orkuveita Reykjavíkur afhenti í dag, 9. desember, átta vörubretti af skjölum Orkuveitunnar. Einkum er um að ræða eldri skjöl frá Orkuveitunni, þ.e.frá árunum 1921 til 1955. Nú munu starfsmenn Borgarkjalasafns skrá og flokka skjölin. Ljóst er að þarna er margt merkra skjala tengd Orkuveitunni og sögu orkumála á í Reykjavík og hjá nágrannasveitarfélögum.

borgarskjalasafn_orkuveitan

Á myndinni má sjá Guðjón Indriðason,deildarstjóra með hluta skjalanna sem afhent voru.

Jólasýning Héraðsskjalasafns Árnesinga 2011

her_arn_jolasyning_2011_21_hg_00038

Þessa mynd tók Herbert Gränz málarameistari, 1963, þegar unnið var að því að koma steinkistu Páls biskups Jónssonar, 1155-1211, í kjallarann undir Skálholtskirkju. Kista Páls fannst við fornleifauppgröft í Skálholti 1954.

Fyrsta desember opnar Héraðsskjalasafn Árnesinga jólaljósmyndasýningu sína. Um er að ræða ljósmyndir sem varpað er með skjávarpa á 2×3 m skjátjald í glugga á Ráðhúsin Árborgar. Á árinu 2011 hafa verið skannaðar inn um 20.000 ljósmyndir á safninu og um helmingur þeirra verið skráðar inn í leitarbæran gagnagrunn. Á sýningunni eru tæplega 300 ljósmyndir sem rúlla á skjánum og mun þeim fjölga þegar nær dregur jólum. Myndirnar koma víðsvegar að úr sýslunni, en þær koma úr ljósmyndasöfnum frá Tómasi Jónssyni, Sigurði Jónssyni, bræðrunum Herbert og Gunnari Gränz, Árna Sverri Erlingssyni. Rögnu Hermannsdóttur, Eyjólfi Eyjólfssyni, Ellu dönsku Jónasson, Gísla Bjarnasyni o.fl.

her_arn_jolasyning_2011_35_da_00012

Björn úr Firði sýnir æfingar á tvíslá á landsmóti UMFÍ í Hveragerði 1949. Ljósmyndari Daníel Ágústínusson.

SLÓ

Sögufélag Kópavogs stofnað

stjornsogufelagskop17nov2011

Stjórn Sögufélags Kópavogs f.v. Frímann Ingi Helgason, Gunnar Svavarsson, Þórður Guðmundsson, Ólína Sveinsdóttir og Arndís Björnsdóttir.

Héraðsskjalasöfn eiga mikið undir sögulegum áhuga íbúa á svæðinu sem þau starfa á og gagnkvæmur stuðningur sögufélags og héraðsskjalasafns á hverjum stað getur skilað miklum árangri við að efla þekkingu á heimahögum og mannlífi þar. Elsta héraðsskjalasafn landsins, Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, á t.d. rætur að rekja til Sögufélags Skagfirðinga.

Sögufélag Kópavogs var stofnað fimmtudagskvöldið 17. nóvember sl. í safnaðarheimili Kársnessóknar, Borgum. Undirbúningsnefnd skipuð þeim Arndísi Björnsdóttur, Frímanni Inga Helgasyni, Gunnari Svavarssyni, Ólínu Sveinsdóttur og Þórði Guðmundssyni ásamt starfsmönnum Bókasafns Kópavogs og Héraðsskjalasafns Kópavogs, þeim Hrafni Harðarsyni, Hrafni Sveinbjarnarsyni og Gunnari Marel Hinrikssyni skipulagði fundinn og samdi drög að lögum fyrir hið nýja félag.

Um 90 manns sóttu stofnfundinn og var gerður góður rómur að framtakinu.

Frímann Ingi hélt tölu fyrir hönd undirbúningshópsins og sagði frá aðdraganda þess að félagið var stofnað. Bæjarstjóri Kópavogs, Guðrún Pálsdóttir, flutti ávarp, færði félaginu veglega bókagjöf og árnaðaróskir. Þá voru lög félagsins borin undir atkvæði og samþykkt. Kosin var bráðabirgðastjórn fram að fyrsta aðalfundi og voru þau Arndís Björnsdóttir, Frímann Ingi Helgason, Gunnar Svavarsson, Ólína Sveinsdóttir og Þórður Guðmundsson úr undirbúningshópnum kosin einróma með lófataki. Magnús Óskarsson fyrrverandi yfirkennari við bændaskólann á Hvanneyri flutti erindi um upphaf þéttbýlismyndunar í Kópavogi sem hann varð vitni að þar sem hann ólst upp á Kópavogsbúinu á fyrri hluta 20. aldar. Sýndar voru gamlar myndir úr bænum. Einnig tók til máls Rannveig H. Ágeirsdóttir bæjarfulltrúi og óskaði hinu nýja félagi velfarnaðar. Ömmubakstur og sælgætisgerðin Freyja gáfu veitingar með kaffinu.
Fyrsti aðalfundur félagsins verður haldinn í febrúar og verður hann nánar auglýstur síðar. Þeir sem ganga í félagið fyrir annan aðalfund, þ.e. 2013, teljast stofnfélagar. Allir sem áhuga hafa á sögu hins unga bæjarfélags eru hvattir til að hafa samband við einhvern úr bráðabirgðastjórninni og ganga í félagið.

Góð aðsókn á farandsýningum Héraðsskjalasafns Austfirðinga

Starfsfólk Héraðsskjalasafnsins lagði land undir fót á Dögum myrkurs (og svo aftur í síðustu viku) og heimsótti fjóra staði á Austurlandi. Tilefnið var að sýningin Austfirsk menning í ljósmyndum sem Menningarráð Austurlands styrkti við síðustu úthlutun.

Dagana 7.-9. nóvember heimsóttu Arndís og Hrafnkell þrjá staði, en þeir voru Fáskrúðsfjörður, Seyisfjörður og Djúpivogur, og voru þær sýningar hluti af dagskrá Daga myrkurs. Síðastliðinn miðvikudag (16. nóvember) var svo haldið til Vopnafjarðar í sömu erindagjörðum.

Efni sýninganna var þríþætt, en auk ljósmyndanna (sem voru í aðalhlutverki) var starfsemi Héraðsskjalasafnsins kynnt og sýnd voru myndskeið úr safni Austfirska sjónvarpsfélagsins sem varðveitt er í Héraðsskjalasafninu. Þó uppbygging sýninganna væri sú sama á öllum stöðum var hver og ein sýning sérsniðin að hverjum sýningastað og var efnið að mestu eða öllu leyti frá viðkomandi stað.

her_aust_farandsyning1 her_aust-farandsyning2

Hrafnkell Lárusson héraðsskjalavörður á efri mynd og  Arndís og Jósep á þeirri neðri.

Sýningarnar voru vel sóttar en um 200 manns mættu á þessar fjórar sýningar og dreifðist gestfjöldinn nokkuð jafnt, en hann var á bilinu 40-55 manns. Viðtökur gesta voru afar góðar og var það einkar ánægjulegt fyrir starfsfólks safnsins að fá svo jákvæð viðbrögð. Heimamenn á hverjum stað gerðu einnig sitt til að gera sýningarnar að veruleika en sveitarfélögin voru safninu innan handar varðandi húsnæði fyrir sýningarnar. Á öllum stöðunum söfnuðust upplýsingar varðandi einstakar myndir í sýningunum, en af slíkum upplýsingum er mikill fengur til að bæta skráningu mynda.

Á vefsíðu Vopnafjarðarhrepps má finna umfjöllun um sýninguna í Kaupvangi og myndir sem teknar voru þar.

Ekki má gleyma að nefna að lokum sýninguna Þekkir þú myndina? sem haldin var í Hlymsdölum á Egilsstöðum þann 10. nóvember sl. Á þá sýningu mættu milli 40 og 50 manns. Markmiðið með þeirri sýningu var að afla upplýsinga um lítt þekktar eða óþekktar myndir í vörslu safnsins. Söfnuðust heilmiklar upplýsingar um myndirnar og voru viðstaddir, bæði starfsfólk safnsins og gestir, ánægðir með hvernig til tókst.

HL